Misvísandi, rangar eða jafnvel engar upplýsingar
– segir Fjóla Jónsdóttir
Það er allur gangur á því hvernig staðið er að réttindum og starfskjörum Pólverja sem hér starfa. Á fundum sem Efling – stéttarfélag hefur haldið með pólskum félagsmönnum í haust hefur komið í ljós að á flestum vinnustöðum eru hlutirnir í góðum farvegi en jafnframt verðum við á fundunum vör við mikla óánægju og jafnvel reiði yfir því hvernig opinberar stofnanir standa að upplýsingum og skráningu útlendinga á Íslandi, segir Fjóla Jónsdóttir sem hefur í haust skipulagt nokkra fundi með Pólverjum til að veita þeim upplýsingar og aðstoða þá í ýmsum málum sem þeir eiga við að glíma á vinnustöðum sínum hér.
Hún nefndi sem dæmi að nokkrir Pólverjar hefðu verið hér við störf síðan 2005. Þeir sóttu um evrópska sjúkratryggingarkortið þar sem þeir voru á leið í jólafrí til Póllands. Þá kom í ljós að þeir voru skráðir á utangarðsskrá í Þjóðskrá og þar af leiðandi jafnvel ekki komnir með þau réttindi sem þeir hefðu annars átt hjá Tryggingarstofnun.
Ástæður sem gefnar voru eru að þeir höfðu ekki verið búsettir hér á landi í skilningi lögheimilislaganna samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár. Það hlýtur að vakna sú spurning hvar erlendir launamenn sem hingað koma eigi að fá upplýsingar af þessu tagi annars staðar en einmitt hjá Þjóðskrá um leið og þeir eru skráðir til þess að fá kennitölu. Það að búa á gistiheimili eða öðru húsnæði sem hefur ekki verið flokkað sem íbúðarhúsnæði telst ekki vera lögheimili.
Einnig hafa margir þeirra lent í því að umsókn um dvalarleyfi er skilað inn einhverjum mánuðum eftir komu þeirra til landsins og því er skráningu ekki breytt í Þjóðskrá fyrr en það liggur fyrir og þá hefur viðkomandi jafnvel verið hér í 6-8 mánuði.
Eins og kerfið er hér á Íslandi þá eru málin ekki afgreidd á einum stað og því ljóst að upplýsingar hjá þessum stofnunum þurfa að vera samtengdar á einhvern hátt þannig að þegar erlendur starfsmaður fær kennitölu þá beri honum um leið að fá upplýsingar um að hann sé skráður utangarðsskrá þar til umsókn um dvalarleyfi er afgreidd hjá Útlendingastofnun og þá hvar hann eða vinnuveitandi skilar því inn. Einnig er mikilvægt að ef að dvalarstaðurinn sem hann er skráður á flokkast ekki sem lögheimili að þá sé hann strax látinn vita af því, sagði Fjóla að lokum.