Sumar á Ströndum
Vinsæl sumarferð Eflingar
Strandirnar heilla – aftur!!!!!
Ferð sem Efling-stéttarfélag skipulagði á síðasta sumri norður á Strandir reyndist svo vinsæl að færri komust að en vildu. Af ýmsum ástæðum var ekki hægt að bjóða upp á aðra ferð fyrir Eflingu í fyrrasumar en fljótlega var ákveðið að bjóða upp á sams konar ferð í sumar til að mæta óskum fjölda félagsmanna um að komast í þetta vinsæla ferðalag á Strandirnar.
Ferðin verður farin dagana 12. til 15. júlí n.k. og verður sama fyrirkomulag nú og var fyrir ári síðan. Ekið verður á fimmtudegi til Djúpuvíkur og gist á Hótel Djúpavík í þrjár nætur. Ætlunin er að fara í bátsferð með ströndinni frá Norðurfirði norður að Horni. Þetta er dagsferð og sannarlega þess virði að eyða degi í slíka ferð. Sérstaklega ef veðurguðirnir verða ferðalöngum hliðhollir. Markverðustu staðir í Árneshreppi verða skoðaðir og farið í nokkrar gönguferðir. Á heimleiðinni á sunnudeginum er boðið upp á ferð út í Grímsey á Steingrímsfirði en þangað er mjög skemmtilegt að koma.
Innifalið í ferðinni er akstur, sigling og leiðsögn, gisting á Hótelinu á Djúpuvík, morgunverðir og kvöldverðir. Fólk þarf að hafa með sér nesti fyrir daginn en hægt er að kaupa kaffi á brúsa á hótelinu. Þá er rétt að minna á að taka með sér góðan fatnað og góða skó.
Innritun í ferðina hefst 12. mars á skrifstofu Eflingar – stéttarfélags, síma 510 7500.