Námskeið í skyndihjálp

Námskeið í skyndihjálp

Hafa bjargað mannslífum

– segir Sigurður Pétur Jónsson

Securitas hélt námskeið í skyndihjálp fyrir öryggisverði sem starfa hjá fyrirtækinu og var námskeiðið haldið í húsakynnum Eflingar í Sætúni 1. Sigurður Pétur Jónsson var í hópi þátttakenda. Hann sagðist hafa farið á námskeið fyrir nokkrum árum en ekki hafi reynt á kunnáttu sína í skyndihjálp ennþá. Hann hefði þessvegna þekkst boðið um að taka þátt í námskeiðinu núna því að mælt er með endurmenntun annað hvert ár.
Sigurður segir að aðgerðir á vettvangi, skoðun og mat, endurlífgun, blæðing og lost, brunasár, eitranir og bit og stungur hafi verið meðal viðfangsefna á námskeiðinu.  Útkallsbílar frá Securitas séu útbúnir með hjartastuðtækjum og í lok námskeiðisins hefðu  þátttakendur  fengið kennslu í meðferð þeirra. Sigurður segir að Securitas hafi aukið þjónustu við þá sem nota öryggishnappa og námskeiðið sé liður í því verkefni.
Aðspurður segist Sigurður hafa heyrt af tilvikum þar sem að kunnátta öryggisvarða í skyndihjálp hafi bjargað mannslífum. Það hvetur mann til þess að fylgjast vel með öllu sem fram fer á námskeiðinu, sagði Sigurður að lokum.