Skemmtilegt og gefandi starf

Skemmtilegt og gefandi starf

Hittumst fyrst á kaffihúsi

-segir Ragnheiður Kolsoe

 

Framtíð í nýju landi er tilraunaverkefni sem hefur staðið yfir í tvö ár og styður við ungt fólk af erlendum uppruna til að ná markmiðum sínum í námi og störfum. Í upphafi var stefnt að því að vinna náið með tíu til fimmtán einstaklingum. En núna eru 32 einstaklingar skráðir í verkefnið og þeir sem eru virkastir hafa stuðningsaðila.

 

Í þeim hópi er Ragnheiður Kolsoe, þróunarfræðingur og hún segir að tilviljun hafi ráðið því. ,,Ég sótti um að vera sjálfboðaliði hjá Rauða kross Íslands og þá var mér bent á þetta verkefni. Ég ákvað að kanna um hvað það snérist og sótti svo um að verða mentor eða stuðningsaðili eftir að hafa kynnt mér verkefnið,” segir hún.

 

Ragnheiður segir að hlutverk sitt sé að vera vinkona stúlku frá Víetnam og aðstoða hana eftir þörfum. Hún heitir Voung og er 17 ára og stundar nám á fyrsta ári í Verslunarskóla Íslands.

 

Aðspurð segir Ragnheiður að samstarfið gangi mjög vel. Við hittumst fyrst á kaffihúsi í byrjun nóvember síðastliðinn til þess að kynnast og spjalla saman um verkefnið. Í framhaldi af því ákváðum við að hittast á þriðjudagskvöldum. Ég sæki hana yfirleitt og oftast förum við heim til mín og spjöllum saman. Stundum gerum við líke eitthvað skemmtilegt saman.

 

Ragnheiður segir að Voung hafi þurft að taka próf í skólanum fyrir jól og þá hafi hún hjálpað henni að lesa undir próf í íslensku og ensku. En hún hafi sjálf séð um allar raungreinar og m.a. fengið 10 í stærðfræði.

 

Hún segir líka að Voung hafi mikinn metnað í öllu sem hún gerir og hún tali góða íslensku. Voung er dugleg að segja mér frá menningunni í Víetnam. 

 

Samverustundir okkar eru bæði gefandi og skemmtilegar og við erum mjög góðar vinkonur núna. Ég hringi stundum þess á milli sem við eigum að hittast og fæ fréttir af því sem hún hefur verið að sýsla við, sagði Ragnheiður og brosir.

 
Áhugasamir um sjálfboðaliðastarf geta haft samband við Rauða Krossinn í síma 570 4000.