Nýjung frá Félagsmálaskóla alþýðu
Vefnám fyrir trúnaðarmenn
Félagsmálaskóli alþýðu hefur frá upphafi haft að leiðarljósi að byggja upp þekkingu og þróa aðferðir til að hvetja trúnaðarmenn að bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Fyrir nokkrum misserum var ráðist í framkvæmd á upplýsinga- og uppflettigrunni á netinu sem fékk nafnið Vefnám fyrir trúnaðarmenn og var hann formlega gangsettur í október. Ákveðið var að kalla þetta vefnám, þótt þetta sé meira í anda við uppflettigrunn. Vefnámið er byggt á Handbók trúnaðarmannsins og samanstendur af 25 þáttum sem fjalla um réttindi og skyldur launafólks. Auk þess er farið í grundvallaratriði í starfi og ábyrgð trúnaðarmannsins. Eftir hvern þátt vefnámsins eru verkefni. Verkefnin eru gagnvirk og fá þátttakendur svar um leið og þeir hafa leyst verkefnin. Einn af mörgum kostum vefnámsins er að trúnaðarmaðurinn ákveður hvenær hann fer inn á námskeiðið, hvar hann tekur það og hvenær hann tekur sér hlé eða hættir.
Til að komast inn í vefnámið er slegið inn notendanafni sem hverju félagi er úthlutað í gegnum Félagsmálaskólann og þurfa trúnaðarmenn að hafa samband við sitt félag til að fá notendanafnið afhent. Hægt er að nálgast slóðina á heimasíðu Félagsmálaskólans, sem er www.felagsmalaskoli.is.