Ársfundur hjá faghópi félagsliða


Fanney Friðriksdóttir félagsliði og nýr aðaltrúnaðarmaður Eflingar hjá Reykjavíkurborg fer yfir ársskýrslu stýrihóps hjá fagfélagi félagsliða

Félagsliðar í stöðugri sókn

Ársfundur hjá faghópi félagsliða

Ársfundur var haldinn hjá faghópi félagsliða í Kiwanishúsinu, miðvikudaginn 28. mars síðastliðinn og var hann vel sóttur.  Þar var farið yfir það sem helst hafði verið á döfinni hjá félagsliðum á liðnu ári.  Einnig flutti Magnús Ólafsson, deildarstjóri á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúss áhugavert erindi og Guðrún Óladóttir, forstöðumaður sjúkrasjóðs Eflingar fór yfir helstu réttindi og breytingar í sjúkrasjóði.
Það var gerður góður rómur að erindi Magnúsar Ólafssonar, deildarstjóra á geðsviði LSH en hann fjallaði um framkomu og virðingu í samskiptum við geðfatlaða.  Magnús ræddi um samspil einkasjálfs og vinnusjálfs og mikilvægi þess að hafa gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs.  Þá var athyglisvert að heyra að þeir þættir sem helst móta samskipti- eða tjáskiptastíl fólks eru þættir eins og uppruni fólks eða fjölskyldumynstur, heilbrigði, lífsreynsla og gildismat.  Magnús fjallaði talsvert um virðingu og mikilvægi þess að læra að virða sjálfan sig sem og aðra og geta sett sig í spor annarra.
Guðrún Óladóttir, forstöðumaður sjúkrasjóðs Eflingar kynnti félagsliðum helstu réttindi sín úr sjúkrasjóði ásamt því að fara yfir aukin réttindi sem nú gilda úr sjúkrasjóði.
Í ársskýrslu faghóps félagsliða kom meðal annars fram að útskrifaðir félagsliðar væru nú taldir hátt í 300 manns.  Þá væri mjög mikilvægt að huga að endur- og símenntun félagsliða eftir að námi lýkur.  Áframhaldandi sérþekking eins og til dæmis Alzheimerfræðsla myndi nýtast vel sem viðbótarþekking við félagsliðanámið.  Einnig var greint frá Færeyjarferð faghóps félagsliða sem kynntu sér fjölþætta heimaþjónustu í Færeyjum þar sem lögð er rík áhersla á umönnun aldraðra og ætlunin er að nýta menntun félagsliða í auknum mæli í heimaþjónustu og á hjúkrunarheimilum.