Starfsfólk Eflingar í vistverndarátaki!

Umhverfisefling

Starfsfólk Eflingar í vistverndarátaki!

Nú í vetur hefur hópur starfsfólks hjá Eflingu myndað visthóp sem fengið hefur nafnið Umhverfisefling.  Hópurinn hittist reglulega og fer yfir ýmis mál sem tengjast umhverfismálum.  Það sem fjallað hefur verið um í vetur er meðal annars orkumál, innkaup, samgöngur og sorp.  Umhverfiseflingarfélagar hafa fengið ýmis heimaverkefni sem flest snúast um að mæla ýmislegt sem tengist vatnsnotkun, orkunotkun og sorpi. Þátttakendur eru sammála um að þetta hafi verið skemmtilegur og fróðlegur tími. 
Allir hafa lært margt nýtt varðandi umhverfi sitt og hvernig við getum gengið betur og umhverfisvænni til verks við okkar daglegu störf bæði í vinnunni og heima fyrir.  Þetta átak starfsfólks Eflingar er hluti af alþjólega umhverfisverkefninu „Global Action Plan for the Earth“ eða „Vistvernd í verki“ eins og það heitir á Íslandi.
Vistvernd í verki er alþjóðlegt umhverfisverkefni. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar í heiminum svo vitað sé og hafa kannanir sýnt að það skilar miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfismeðvitund og hegðun. Um 700 heimili hafa nú þegar tekið þátt í verkefninu á Íslandi.  Verkefnið hefur fest sig í sessi í 19 löndum og er Ísland eitt þeirra.