Fjölgun í félaginu
– karlar sækja á……
Félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum misserum og einnig eru talsverðar breytingar á samsetningu hópsins. Mesta fjölgunin hefur átt sér stað í hótel- og veitingageira og eins hefur störfum í byggingariðnaði fjölgað hratt. Á meðan störfum í vefjar- og fataiðnaði hefur fækkað hafa störf í matvæla- og drykkjaiðnaði svo til staðið í stað. Þá er nokkuð um að störfum sem áður tilheyrðu ríki eða sveitarfélögum heyra nú undir fyrirtæki í einkaeigu.
Karlar orðnir fleiri en konur
Frá árinu 2002 hefur félagsmönnum sem starfa í byggingariðnaði fjölgað hratt eða úr 1100 manns í 2600 manns. Fjölgun í þessum störfum hefur jafnframt leitt til þess að kynjahlutföll í félaginu hafa breyst úr því að vera um 45% karlar á móti 55% kvenna árið 2002 í það að vera nú 51% karlar á móti 49% kvenna. Þá er tæplega helmingur þeirra sem starfa í byggingariðnaði með erlent ríkisfang en sé tekið mið af heildarfjölda félagsmanna þá er hlutfall erlends vinnuafls um 30%.
Unga fólkið fjölmennt í hótel- og veitingageiranum
Vel yfir þrjú þúsund manns starfar nú að jafnaði í hótel- og veitingageira sem er nánast þreföldun á tíu árum. Unga fólkið er fjölmennast í þessum hópi og jafnframt talsverð hreyfing á þessum hópi en um 7100 félagsmenn komu við sögu í þessari starfsgrein á síðasta ári. Um 81% félagsmanna í hótel- og veitingageiranum eru undir 30 ára.