Verðum að slá á þensluna
– segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar
Á 1. maí er gott að staldra við og horfa fram á við en einnig til baka. Þegar litið er til baka frá upphafi Kárahnjúkavirkjunar og öll þau varnaðarorð sem þá voru látin falla eru skoðuð, kemur í ljós að framkvæmdagleðin hefur borið fyrirhyggjuna ofurliði. Stjórnvöld töluðu um að ekki mætti fara of hratt í framkvæmdir á sama tíma og þessi mikla uppbygging ætti sér stað svo ekki sköpuðust svokölluð ruðningsáhrif gagnvart öðrum störfum vegna sterkrar stöðu krónunnar. Stórframkvæmdir myndu draga lífið úr öðrum fyrirtækjum í hefðbundnum greinum og nývaxtarstarfssemi. Þetta er einmitt það sem hefur gerst, því miður, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar í viðtali við Eflingarblaðið.
Allt launafólk þekkir svo vel framhaldið. Norðurálsstækkun, Reyðarálsverksmiðjan, gríðarlegar framkvæmdir á vegum Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði og hitaveitu Suðurnesja á Svartsengi. Framkvæmdir við tónlistahúsið, miklar vegaframkvæmdir og svo mætti lengi telja. Á sama tíma kepptust bankar og Íbúðalánasjóður um að hækka lánshlutföllin sem leiddi til 90 – 100% lána. Þær byggingaframkvæmdir sem áttu sér stað í framhaldinu á suðurhorni landsins juku síðan á þensluáhrifin með hækkandi íbúðarverði. Áhrifin voru ekki lengi að koma fram. Hér skapaðist mikil þensla sem leitt hefur til mikillar hækkunar verðbólgu sem mætt hefur verið með veikburða hætti að hálfu Seðlabanka Íslands með stýrivöxtum sem í reynd hafa haft mjög takmörkuð áhrif þar sem ríkisstjórnin hefur ekki spilað með, segir hann.
Nýjar stórframkvæmdir
Við erum að fara í gegnum tímabil þar sem rangar ákvarðanir í efnahagsmálum geta haft slæmar afleiðingar inn í nánustu framtíð. Nú fer að líða að seinni hluta framkvæmdanna fyrir austan og þá er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvað er framundan og þá skiptir máli hvernig staðið verður að málum í framhaldinu. Nú þegar ræða menn um næstu stórframkvæmdir. Þar eru fremst á verkefnalistanum álverksmiðja í Helguvík og á Húsavík og undirbúningur að stóriðju í Þorlákshöfn. Framkvæmdir við Sundabrautina, tvöföldum á Suður- og Vesturlandsvegi ásamt fjölda annarra framkvæmda í vegamálum. Framkvæmdir í orkuverum og línuvirkjum vegna raforkuöflunar fyrir álverin, bæði gufu- og vatnsaflsvirkjanir eru á dagskránni. Þess utan er ótrúlegur fjöldi bygginga af öllum stærðum og gerðum á framkvæmdarstigi á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Ef öll þessi áform verða að veruleika á sama tíma skapast hér áframhaldandi þensluástand þar sem hætta er á skelli ef við gætum ekki að okkur. Hér skiptir öllu máli að framkvæmdunum verði dreift á hæfilega langan tíma. Við köllum því eftir efnislegri umræðu í aðdraganda komandi kosninga hvernig stjórnmálamenn ætla að stýra þeim stórframkvæmdum sem falla undir ríki og sveitarfélög þannig að hægt sé að viðhalda ákveðnum stöðugleika. Eða er það eingöngu áhyggjuefni hins almenna launamanns hvort verðbólgan leiki lausum hala?
Það er sérkennileg staða sem verkalýðshreyfingin er komin í. Annars vegar styður hún mikla atvinnuþátttöku og berst gegn atvinnuleysi. En nú er staðan sú að launafólk finnur fyrir vaxandi greiðslubyrði lána vegna allt of hárrar verðbólgu. Þess vegna verður nú að slá á þensluna og skapa hér jafnvægi í efnahagsmálum á ný.
Verðbólgan mælist um þessar mundir u.þ.b. 6%. Hætta er á að lækkun á virðisaukaskatti sem átti sér stað í byrjun marsmánaðar tapist út um gluggann. Það er meiri erfiðleikum bundið að fylgjast með framkvæmdinni eftir því sem verbólgustigið er hærra. Það ber að hrósa matvöruverslunum þar sem lækkunin hefur skilað sér en það sama virðist ekki vera uppá teningnum með veitingahús og skyndibitastaði. Það vekur furðu að þessir sömu aðilar skuli ekki hafa gripið tækifærið til þess að lækka verð á vörum sínum sérstaklega í ljósi þess að þeir hafa kveinað undan hárri álagningu í gegnum tíðina og borið því við að hátt verð á veitingahúsum væri tilkomið vegna mikilla álagningar. Sannleikurinn sýnir annað, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.