Hundrað milljónir til íslenskukennslu í haust
Samkvæmt frétt á vef menntamálaráðuneytisins hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja 100 milljónum til viðbótar til íslenskukennslu á þessu ári. Áður var búið að úthluta 90 milljónum og áttu þeir fjármunir að duga fyrir íslenskukennslu á árinu 2007. Þegar umsókir sem bárust til menntamálaráðuneytisins í byrjun árs voru skoðaðar kom í ljós að þær 90 milljónir sem úthlutað var dygðu hvergi til að mæta þeirri þörf sem er fyrir íslenskukennslu. Sótt var um 144 milljónir þannig að þá strax varð ljóst að aukið fé þyrfti að koma til svo hægt væri að mæta þeirri miklu ásókn sem er í íslenskunám. Það ber að fagna því að stjórnvöld skuli með svo myndarlegum hætti koma til móts við þá fjölmörgu sem vilja bæta íslenskukunnáttu sína.