Select Page


Thomas er einn af leiðbeinendum SAM á Indlandi

Efling með stéttlausum á Indlandi

Hefur gerbreytt lífi fjölda fólks

– segir Jónas Þórir Þórisson

Það er mikil ánægja með þetta verkefni af hálfu Hjálparstarfs kirkjunnar og hjá Social Action Movement á Indlandi, sagði Jónas Þórir Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar við undirritun samnings hjá Eflingu-stéttarfélagi. Í sama streng tóku þau Sigurrós Kristinsdóttir og Guðmundur Þ Jónsson, formenn Eflingar þegar þau framlengdu samninginn við SAM sem hefur skilað stéttleysingjum í Tamil Nadu héraði í Suður Indlandi miklum árangri.
Fram kom hjá Jónasi Þóri að þegar hann heimsótti Tamil Nadu hérað á síðastliðnu hausti hafi forystumenn SAM hreyfingarinnar þakkað Eflingu fyrir þann mikla stuðning sem félagið hefur sýnt með fjárstuðningi samkvæmt samningi sem Hjálparstarf kirkjunnar hér á landi hefur umsjón með.
Þetta hefur gerbreytt lífi fjölda fólks, segir hann. Stuðningur Eflingar hefur þýtt að mikill fjöldi fólks hefur fengið nýja þekkingu og fræðslu til að takast á við lífið. Bara það að geta skrifað nafnið sitt eða lesið sér til um rétt sinn og kjör, gerir það að verkum að einstaklingarnir verða sterkari til að takast á við daglegt líf.
Á síðustu árum hafa orðið til tryggingasjóðir launamanna á þessu svæði og þannig hefur fólkið fengið lágmarkstryggingar í slysum, veikindum og við andlát náinna ættingja. Þetta gerist með þeim hætti að fólkið sjálft leggur fram sín framlög á móti stuðningi og þannig verður samhjálpin til eins og hér á landi þegar verkalýðshreyfingin átti þátt í að reisa alþýðu þessa lands úr örbirgð.
Ein ánægjuleg breyting við starf SAM á Suður Indlandi er að þar hefur orðið til öflug verkalýðshreyfing meðal verkamanna í sykurreyrnum. Félag þeirra er orðið sjálfstætt frá SAM og getur tekist á við atvinnurekendur.
Þvottafólkið stendur einnig betur eftir verkfall sem það gerði um árið, en áður fyrr var algengt að það fengi greitt í matarleyfum, en eftir verkfallið varð niðurstaðan að greiða ber í peningum.
Það er hægt að segja mörg dæmi um þann árangur sem orðið hefur af framlagi Eflingar. Hann sagði frá ungum þvottamanni sem opnaði þvottahús og nú er hann með fólk í vinnu og ákveður verðlag á sinni þjónustu. Þannig hafa aðstæður breyst mikið til bóta á síðustu árum, segir hann.
Formenn Eflingar sögðu að mikil samstaða væri um það í stjórn Eflingar að styðja við þetta starf og vel væri að því staðið, bæði af hálfu Hjálparstarfsins og SAM á Indlandi.


Jónas Þórir Þórisson, Guðmundur Þ Jónsson og Sigurrós Kristinsdóttir innsigla nýjan samning við SAM á Indlandi

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere