Kjarasamningar lausir um áramót á almennum markaði
Samninganefnd kosin í næstu viku
Kjarasamningar á almennum markaði eru lausir um áramót og er vinna þegar hafin hjá Eflingu-stéttarfélagi að undirbúningi samninganna. Félög Flóabandalagsins, Vlf. Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis hafa þegar rætt saman um að mynda sameiginlega samninganefnd. Auk þeirra hefur Boðinn í Þorlákshöfn óskað eftir því að vera með þessum félögum í komandi samningum og hafa stjórnir félaganna samþykkt það fyrir sitt leyti.
Á trúnaðarráðsfundi Eflingar-stéttarfélags í næstu viku verður gengið frá skipan samninganefndar félagsins en einnig þarf að undirbúa viðræðuáætlun við Samtök atvinnulífsins af hálfu Flóafélaganna.
Stéttarfélögin innan Flóans hafa rætt um komandi kjarasamninga á fundum sínum undanfarið, en mótun kjaramálastefnu bíður vinnunnar næstu vikna þegar samninganefnd hefur verið skipuð en það er sameiginleg samninganefnd félaganna sem gengur frá kröfugerð fyrir félögin þegar þar að kemur.
Nánar verður sagt frá framvindu undirbúnings kjarasamninganna á heimasíðu Eflingar á næstu dögum.