Fundur samninganefndar Flóa og Boðans

11. 10, 2007


Fundur samninganefndar Flóa og Boðans

Vinnum á grundvelli kaupmáttar

Í gærkvöldi kom samninganefnd Flóabandalagsins og Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans saman á sínum fyrsta fundi. Nefndin kaus Sigurð Bessason, formann Eflingar einróma sem formann samninganefndarinnar. Þá var lagður fyrsti rammi að almennri stefnumörkun fyrir kjarasamningana og kosin viðræðunefnd úr hópi samninganefndarmanna. Samninganefndin samþykkti að vinna á grundvelli launakönnunar félaganna þar sem fram kom mikil áhersla á kaupmátt og sérstaka hækkun lægstu launa umfram almennar hækkarnir. Viðræðuáætlun við atvinnurekendur var samþykkt af hálfu nefndarinnar við Samtök atvinnulífsins. Því var sérstaklega fagnað á fundinum að Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn hefur nú ákveðið að vera með Flóafélögunum í komandi samningum.
Fram kom á fundinum að launamunur kynjanna hefur aukist og var mikil áhersla lögð á að í samningaviðræðunum yrðu fundnar leiðir til að vinna að auknu launajafnrétti.
Samninganefndin samþykkti að drög að kröfugerð verði mótuð með hliðsjón af helstu niðurstöðum og viðhorfum félagsmenna sem m.a. koma fram í launakönnun Flóans og umræðum sem áttu sér stað á fundinum. Meginatriði verði að vinna á grundvelli kaupmáttarauka á samningstímabilinu og lægstu laun fái sérstaka hækkun umfram almennar hækkanir. Skýrt uppsagnarákvæði verði í samningnum sem snýr að verðbólgu og launaþróun annarra.
Þá samþykkti fundurinn að tímalengd samningstímans verði mótuð samhliða kjaramálastefnunni.
Viðræðunefndinni var falið að koma með mótaða stefnu í meginatriðum fyrir komandi kjarasamninga á næsta fund nefndarinnar.

Tillaga um viðræðuáætlun

Samninganefndin samþykkti fyrir sitt leyti þau drög að viðræðuáætlun sem kynnt voru á fundinum.

Tillaga um viðræðunefnd

Samninganefndin samþykkti einnig að viðræðunefnd við atvinnurekendur verði skipuð formönnum og varaformönnum stéttarfélaganna Eflingar, Hlífar, VSFK og Boðans auk þeirra sem þeir tilnefna með sér.