Sögðu upp á Foldaborg vegna launanna

16. 10, 2007


Aðalheiður Berndsen, Hrefna Karlsdóttir og Lilja Guðmundsdóttir

 

Sárt að slíta sig frá börnunum

Sögðu upp á Foldaborg vegna launanna

Þrír leiðbeinendur á leikskólanum Foldaborg sögðu upp störfum í sl. mánuði eftir margra ára störf á leikskólum. Hrefna Karlsdóttir hefur  þrettán ára starfsreynslu, Lilja Guðmundsdóttir sjö ár og Aðalheiður Berndsen fimm ár. Þær segja ástæðuna fyrir uppsögnunum vera aðgerðarleysi borgaryfirvalda í launamálum starfsmanna á leikskólum. Þegar í ljós kom í sumar að erfitt yrði að fullmanna leikskólana var rætt um að finna leið til þess að hækka launin hjá okkur, en ekkert hefur skeð ennþá  og þolinmæði okkar  er þrotin, segja þær. 
Við fengum lítil viðbrögð við uppsögnunum sem er skiljanlegt vegna þess að leikskólastjórinn er með bundnar hendur í launamálum.
Aðspurðar um hvað taki við að loknum uppsagnarfrestinum, segjast Hrefna og Aðalheiður hafa ráðið sig í störf sem eru mun betur launuð. En Lilja er að athuga hvað sé í boði sem hentar henni.
Þær segja að þeim finnist sárt að þurfa að hætta á leikskólanum og enn sárara verði að slíta sig frá börnunum. En við verðum að hugsa um afkomu fjölskyldna okkar og kveðjum þessvegna frábæra vinnufélaga og góðan vinnustað.