Til hamingju Þórunn!

26. 11, 2007


Forseti Íslands afhenti Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur starfsmenntaverðlaunin

 

Starfsmenntaverðlaunin 2007

Til hamingju Þórunn!

Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur var á föstudaginn 23. nóvember sl. veitt starfsmenntaverðlaunin  2007 vegna starfa sinna að starfs-, sí- og endurmenntun.  Þetta er mikill heiður fyrir Þórunni og um leið fyrir Eflingu-stéttarfélag sem með Þórunni í fararbroddi fékk starfsmenntaverðlaunin árið 2005 fyrir starf að fræðslumálum þeirra sem minnsta formlega menntun hafa í atvinnulífinu.

Óhætt er að fullyrða að Þórunn Sveinbjörnsdóttir er öllum sem unnið hafa að starfsmenntamálum á Íslandi síðustu tvo áratugina að góðu kunn fyrir störf sín á þeim vettvangi.  Þórunn hefur einkum einbeitt sér að því að ryðja braut fyrir þá sem minnsta menntun hafa úr formlega skólakerfinu og hefur hún og samstarfsfólk hennar með starfi sínu gert þúsundum íslendinga kleift að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og taka þátt í fræðslustarfi sem oft gjörbreytir lífi þeirra.
Margir koma brotnir út úr skólagöngu sinni í skólakerfinu með þá vissu að nám sé ekkert sem hentar þeim.  Þegar sömu einstaklingar kynnast síðan þeim vinnubrögðum og námsaðferðum sem viðhöfð eru í fullorðinsfræðslu gerbreytist viðhorf þeirra til menntunar og ekki síður til þeirra sem einstaklinga.  Oft er nám í fullorðinsfræðslu stór þáttur í að endurheimta sjálfstraustið og fá tækifæri til að upplifa sig sem sigurvegara í námi í fyrsta sinn á æfinni.
Málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði hafa verið Þórunni sérstaklega hugleikin og hefur hún beitt sér af alefli á þeim vettvangi við að greiða götu þeirra.  Það hefur hún einkum gert með því að berjast fyrir aukinni íslenskukennslu og almennu námskeiðahaldi af ýmsu tagi sem opnar leiðir fyrir þá sem eru að flytjast til landsins.
Þegar Efling stéttarfélag varð til var strax mörkuð sú áhersla hjá félaginu að gefa menntamálum félagsmanna mikið vægi og sinna þeim af krafti, alúð og kostgæfni.  Það hefur skilað sér í því að Efling hefur frá upphafi verið í framvarðarsveit þeirra sem ryðja brautina í starfsmenntamálum á Íslandi.  Þórunn hefur leitt það starf hjá Eflingu allt frá stofnun félagsins.