Vinna stöðvuð hjá Jarðvélum vegna vangreiddra launa
Efling aðstoðar starfsmenn
Starfsmenn Jarðvéla sem vinna við tvöföldun Reykjanesbrautar hafa að undanförnu leitað liðsinnis Eflingar-stéttarfélags vegna þess að fyrirtækið hefur ekki staðið við launagreiðslur til starfsmanna á undanförnum vikum. Starfsmenn hafa bæði farið sér hægt við vinnuna eða lagt niður vinnu til að knýja á um launagreiðslur. Þá eru dæmi um starfsmenn sem hafa hætt störfum vegna ítrekaðra vanefnda af hálfu fyrirtækisins. Efling stéttarfélag hefur eftir því sem kostur er ráðlagt starfsmönnum og gert kröfur á hendur fyrirtækinu að það standi við gerða samninga við starfsmenn.
Nokkrir starfsmenn Jarðvéla hafa leitað til skrifstofu Eflingar-stéttarfélags með kröfur á hendur fyrirtækinu og eru þær vegna ógreiddra launa, launatengdra gjalda sem dregin hafa verið af starfsmönnum en ekki skilað. Nú þegar hafa nokkrar launakröfur verið sendar fyrirtækinu og verði þær ekki greiddar þá verða þær í framhaldinu sendar lögmönnum félagsins til innheimtu.
Dæmi eru einnig um að orlofsgreiðslum hefur ekki verið skilað í banka eins og samningar gera ráð fyrir. Í þeim tilvikum hefur verið vísað á félagsmálaráðuneytið þar sem það tekur skemmri tíma að fá greitt frá þeim. Ábyrgðarsjóður launa greiðir slíkar skuldir innan 28 daga.
Þá eru einnig dæmi um vangoldin iðgjöld til lífeyrissjóðsins Gildis og að launatengdum gjöldum hafi ekki verið skilað. Þeim málum er vísað til viðkomandi aðila.
Erfitt eða jafnvel ógert hefur verið að ná í forsvarsmenn fyrirtækisins undanfarna daga, verkstjórar Jarðvéla virðast hættir störfum og staða almennra starfsmanna því þannig að þeir geta með engu móti haldið áfram störfum hjá fyrirtækinu við þessar aðstæður.
Mikilvægt er að starfsmenn í slíkum tilvikum leiti til stéttarfélaga sinna eins og margir þeirra hafa gert undanfarna daga og fengið ráðgjöf hjá Eflingu-stéttarfélagi hvernig eigi að bregðast við þessu ástandi í fyrirtækinu.