Efling, vel að verki staðið!

 
Efling, vel að verki staðið!
 

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Eflingu-stéttarfélagi, Luca Lúkasi Kostić, Hjálmari Sveinssyni og Ævari Kjartanssyni viðurkenningu Alþjóðahúss ,,Vel að verki staðið” fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi við athöfn í Alþjóðahúsinu 30. desember.

Viðurkenningin, sem nú er veitt í fimmta skipti, þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Veittar voru viðurkenningar fyrir lofsverða frammistöðu í þremur flokkum; til einstaklings af íslensku bergi brotinn sem hefur lagt sitt af mörkum til innflytjenda á Íslandi sem voru tveir að þessu sinni, til einstaklings af erlendum uppruna sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins og til fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka fyrir framlag til málefna innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins.

Allt frá stofnun Eflingar-stéttarfélags hefur verið lögð mikil áhersla á að sinna málefnum útlendinga í félaginu. Þegar félagsmönnum með erlent ríkisfang tók að fjölga fyrir alvöru á árunum 2003-4 þá var mikið kapp lagt á að ná til þess stóra hóps erlendra launamanna sem kominn var inn í félagið á skömmum tíma. Hin mikla breyting sem var síðan 1. Maí 2006 með opnun gagnvart nýjum ríkjum innan Evrópusvæðisins hleypti enn af stað nýrri bylgju launamanna inn á starfssvæði félagsins. Í dag eru rúmlega 8.000 félagsmenn innan Eflingar af erlendum uppruna sem er rúmlega þriðjungur félagsmanna. Þjóðerni innan Eflingar eru nú fleiri en 120.

Til að gefa nokkra mynd af því starfi sem Efling hefur beitt sér fyrir á undanförnum misserum má nefna eftirfarandi.

 
Íslenskunámið

Efling-stéttarfélag hefur haft frumkvæði að því með fjölmörgum aðilum þ.á.m. Alþýðusambandinu, Alþjóðahúsi og Mími Símenntun að kalla eftir stórauknum stuðningi opinberra aðila við íslenskunám fyrir útlendinga. Fram að því að stjórnvöld komu að auknum stuðningi við íslenskunámið árið 2006 fjármagnaði Efling mjög mikið íslenskunám úr sjóðum félagsins.

 
Kynningarfundir með félagsmönnum

Á síðustu árum hafa verið haldnir bæði morgunverðar- og kvöldfundir með félagsmönnum af erlendum uppruna. Á þessum vetri var sett sérstök dagskrá af stað og haldnir samtals 12 kynningarfundir á þremur tungumálum, ensku, pólsku og litháísku. Samtals sóttu þessa fundi um 550 manns frá 193 fyrirtækjum.

 
Vinnustaðaeftirlit

Sumarið 2006 setti Efling af stað sérstakt vinnustaðaeftirlit í kjölfar þess að verkefni af sama toga lauk hjá Alþýðusambandinu. Verkefnið er unnið í góðu samstarfi við Samiðn og Rafiðnaðarsambandið og hefur skilað miklum árangri. Skipulagðar eru heimsóknir í fyrirtæki og fundir haldnir á félögunum með starfsmönnum sem þurfa á aðstoð og fræðslu að halda.

 
Framtíð í nýju landi

Verkefninu Framtíð í nýju landi, sem unnið var í samstarfi við Reykjavíkurborg og Rauða Krossinn, Alþjóðahúsið og opinbera aðila, er nýlokið en það miðaði að því að veita ungum víetnömum sérstakan stuðning til að ná árangri í námi og á starfsvettvangi. Fullyrða má að verkefnið skilaði góðum árangri og getur orðið fyrirmynd fyrir þá sem vilja stefna að betri og meiri árangri í stuðningi við ungmenni innan skólakerfisins.

 
Upplýsingamöppur

Upplýsingamöppum með fróðleik um helstu atriði kjaramála og sjóði félagsins hefur verið dreift á vinnustaði á þremur tungumálum ásamt íslensku. 

 
 
Trúnaðarmannanámskeið – og félagsliðar í nýju landi

Sérstök trúnaðarmannanámskeið hafa verið haldin fyrir trúnaðarmenn af erlendum uppruna og sérstakt nám fyrir félagsliða með sama bakgrunn hefur verið sett á laggirnar og skilar hvort tveggja góðum árangri.

 
Félagið tengist mörgum verkefnum með útlendingum

Efling-stéttarfélag hefur á síðustu árum tengst fjölmörgum verkefnum fyrir útlendinga fyrir utan það sem að framan er nefnt. Þar má nefna Allar heimsins konur, Mentorverkefnið, nýlegt og árangursríkt barmmerkjaátak með Alþjóðahúsi, VR og fleiri aðilum.

 
Fjölmiðlun til erlendra félagsmanna

Félagsblað Eflingar er að jafnaði með efni á erlendum málum, aðallega ensku, þar sem haldgóðar upplýsingar eru gefnar á erlendum málum til félagsmanna.