Áherslur í samningi við ríkið og stofnanir
Launahækkun og aukin virðing fyrir störfunum
-segir Sigurrós Kristinsdóttir, 1. varaformaður Eflingar
Á fundi sem haldinn var með með trúnaðarmönnum er starfa hjá ríki og hjúkrunarheimilum þann 25. janúar kom fram að mikill hugur er í starfsmönnum þessara stofnana. Um langan tíma hefur verið mikið álag á mörgum hjúkrunarheimilum þar sem erfitt hefur verið að manna störfin. Það er tvennt sem kom mjög áberandi fram á þessum fundi, segir Sigurrós Kristinsdóttir, 1. varaformaður Eflingar. Annars vegar er það nauðsyn þess að hækka launin og hins vegar að vinna að því að auka virðingu fyrir þessum störfum þannig að eðlilegt ástand myndist á þessum stofnunum, segir hún.
Ekki er hægt að nota sömu aðferðir og inn á leikskólum að loka deildum, skerða þjónustu og senda fólk heim þannig að ástandið er mun erfiðara og meira álag á þeim sem vinna þessi störf. Vinnan framundan er að kjósa í samninganefnd og undirbúa kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga við ríkið en þeir eru lausir í lok mars.
Með öflugri símenntun fyrir þá sem starfa við umönnun aukum við virðingu fyrir umönnunarstörfum. Nú þegar eru á annað hundrað manns annað hvort í námi eða útskrifaðir sem félagsliðar. Þá kom fram á fundinum að bjóða þyrfti upp á styttri námsbrautir fyrir þá sem starfa við ræstingar og í eldhúsi.
Það þarf líka að huga vel að erlenda hópnum okkar og mikilvægt er að bjóða upp á íslenskukennslu í vinnutíma. Erlendur hópur er núna í félagsliðanámi þar sem íslenskukennsla er hluti að náminu, segir Sigurrós.
Sigurrós Kristinsdóttir og Harpa Ólafsdóttir hafa umsjón með undirbúningi þessara kjarasamninga og eru að undirbúa kosningu samninganefndar og síðan verður farið í kröfugerðina með Starfsgreinasambandinu.