Samninganefnd Flóafélaganna
Kjaradeilu vísað til sáttasemjara
Afstaða SA til skattatillagna veldur miklum vonbrigðum
– segir Sigurður Bessason
Á fjölmennum fundi samninganefndar Flóafélaganna í kvöld var samþykkt einróma að vísa yfirstandandi kjaradeilu til ríkissáttasemjara. Mikill einhugur kom fram á fundinum og sagði Sigurður Bessason, formaður Eflingar og samninganefndar að afstaða Samtaka atvinnulífsins til skattatillagna stéttarfélaganna hefði valdið miklum vonbrigðum. Tillögur ASÍ til stjórnvalda um skatta- og velferðarmál hefði verið lykillinn að lausn þessarar kjaradeilu.
Nú erum við komin á byrjunarreit á ný í þessari kjaradeilu og við munum nú taka upp kröfugerðina eins og hún var kynnt SA í nóvember. Við munum væntanlega hitta forsvarsmenn SA á morgun og fara yfir málin með þeim að nýju. En í viðræðum aðila í dag kom fram að eftir útspil SA til stjórnvalda um skattamálin er ekki grundvöllur til að ræða lengur saman um á þeim nótum sem við höfum verið að velta fyrir okkur undanfarna daga.