SGS og Flóinn
Fjögurra ára samningur ekki fýsilegur
Á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær komu fram mjög mismunandi sjónarmið samningsaðilanna á lausnum í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú standa milli Flóafélaganna/ SGS og Samtaka atvinnulífsins. Vegna þeirra miklu óvissu sem framundan er í efnahagsmálum hafa Flóinn og Starfsgreinasambandið lagt áherslu á styttra kjarasamningstímabil og á fundinum í gær kom fram tillaga til skoðunar um 13 mánaða samning. Það kom nokkuð á óvart að Samtök atvinnulífsins lögðu fram hugmynd um fjögurra ára samning en það byggist m.a. á útspili VR fyrir nokkrum dögum þar sem félagið lýsti því yfir að það væri tilbúið að ræða samning til svo langs tíma. Það kom skýrt fram í máli samningamanna Flóafélaganna og Starfsgreinasambandsins að enginn grundvöllur væri fyrir samningi til svo langs tíma án almennra launahækkana á tímabilinu.
Af hálfu Flóafélaganna og Starfsgreinasambandsins kom fram að þau væru samstiga um að skoða 13 mánaða samning með töfluinnfærslu upp á 20.000 kr. , tekjutrygging færi í 150 þúsund og almenn hækkun yrði 4%.
Fram kom hjá Samtökum atvinnulífsins að þau hyggjast á miðvikudag ræða við forystumenn opinberu félaganna en samningar opinberra starfsmanna losna á þessu ári og vilja forystumenn SA kynna sér með hvaða hætti opinberu félögin líta efnahagsþróun og kröfugerð.
Ljóst er að vegna mjög neikvæðra viðbragða Samtaka atvinnulífsins við skattatillögum ASÍ félaganna og síðan nánast samhljóða afstaða ríkissstjórnarinnar þar sem tillögurnar voru slegnar út af borðinu, er ekki grundvöllur fyrir sameiginlegri vinnu landssambandanna innan ASÍ í skattamálum á þeim forsendum sem ræddar voru við stjórnvöld og SA.
Samtök atvinnulífsins lýstu þeirri skoðun að þau vildu áfram láta reyna á sameiginlega vinnu í þessu efni og einnig með stjórnvöldum og opinberum starfsmönnum. Það væri árangursríkasta leiðin til þess að ná böndum á verðbólgunniog stuðla að stöðugu efnahagslífi. Það kom hins vegar alveg skýrt frá Flóafélögum og Starfsgreinasambandinu að verkafólk ætlaði ekki að vera eitt á verðbólguvaktinni og að samningur til lengri tíma en eins árs fæli í sér mikla óvissu sem erfitt væri að losa sig úr.