Meginlinur kjarasamninga liggja fyrir

14. 02, 2008


Viðræðunefnd Flóans á fundi í vikunni……

Samningamálin

Meginlínur kjarasamninga liggja fyrir

Viðræðunefnd Flóabandalagsins hittist í morgun og fór yfir meginlínur  sem samþykktar voru sem grunnur kjarasamninganna milli ASÍ og SA í gærkvöldi. Viðræðunefndin samþykkti fyrir sitt leyti að heimila vinnu áfram við samningana á þessum nótum. Landsamböndin innan ASÍ eru að fara yfir málin í dag en búist er við jákvæðum niðurstöðum.  Þegar sú niðurstaða liggur fyrir og sérmálum er lokið er gert ráð fyrir fundi með stjórnvöldum þar sem farið verður yfir skatta- og velferðarkröfur er tengjast þessum samningum.

Kjarasamningar gilda samkvæmt drögunum sem nú liggja fyrir til nóvemberloka ársins 2010 og fela í sér hækkun almennra launataxta um kr. 18.000 við undirskrift, kr. 13.500 árið 2009 og kr. 6.500 árið 2010. Við það er miðað að nýjar launatöflur taki gildi á hverju ári og ekki er gert ráð fyrir að heimilt verði að lækka álagsgreiðslur á móti taxtabreytingunni.

Samkomulag vegna launaþróunartryggingar miðast við að þeir sem hafa verið í starfi hjá sama atvinnurekanda og hafa ekki fengið að lágmarki 5,5% launahækkun frá 2. janúar 2007 til undirritunar samninga fái það sem á vantar. Ennfremur verði ákvæði fyrir þá sem skipt hafa um starf fram til 1. september 2007. Á árinu 2009 verði launaþróunartryggingin 3,5%.

Árið 2010 verði almenn launahækkun upp á 2,5%, auk fyrrgreindra taxtahækkana.