Fyrsti fundur með samninganefnd ríkisins
Áhersla launafólks á hækkun lægstu launa
Kjarasamningur Eflingar við ríkið er laus 31. mars næstkomandi. Starfsgreinasambandið sem fer með samningsumboð Eflingar við ríkið og samninganefnd ríkisins komu saman á fyrsta fundi í þessari samningslotu í gær 11. mars. Þar fór hvor samningsaðili um sig yfir helstu megináherslur.
Lögð er áhersla á að hækka lægstu laun sérstaklega og vinna að auknum kaupmætti. Meta þarf að verðleikum störf við umönnun sem mikið til eru unnin í vaktavinnu. Heildarendurskoðun verði gerð á vinnufyrirkomulagi vaktavinnufólks enda hafi rannsóknir sýnt að vaktavinna sé meira slítandi en annað fyrirkomulag vinnu. Starfsgreinasambandið telur nauðsynlegt að efla starfsmenntun enn frekar og að það nám sem nýtist í starfi – svo sem félagsliðanám – verði viðurkennt.
Stöðugleiki í efnahagsmálum er megináhersluatriði hjá ríkinu, þar sem samið yrði um sambærilega útfærslu launabreytinga og almennt hefur orðið raunin í fyrirliggjandi kjarasamningum. Þá verði ríkið með að meginstofni til einn samhljóða kjarasamning við sína samningsaðila sem myndieinfalda vinnu stofnana við gerð stofnanasamninga. Einnig vill ríkið endurskoða tilhögun vinnutíma og samhæfa endurmenntunarsjóði.
Ljóst er á þessari yfirferð að töluverð vinna er framundan við að stilla saman strengi og þá ekki síst gagnvart öðrum samningsaðilum við ríkið. Samninganefnd Eflingar mun funda síðar í þessari viku og fara yfir frekari áherslur sín megin.
Kjarasamningar við hjúkrunarheimili og sjálfseignarstofnanir eru einnig lausir í lok mars og mun það samningsferli vera unnið samhliða kjarasamningsgerð við ríkið.