Mikilvægt að greiða atkvæði
– segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar
Atkvæðagreiðslunni sem nú stendur um nýgerða kjarasamninga lýkur um hádegi á mánudag 10. mars. Því miður er það reynsla okkar á undangengnum árum að allt of stór hópur nýtir ekki lýðræðislegan rétt til að hafa áhrif á niðurstöður samninga. Það er ekki alltaf djúp hugsun að baki því, stundum fullyrðingar um að atkvæðið skipti ekki máli. Aðrir hafi ákveðið þetta fyrir mann hvort eð er. Það er sannarlega mikill misskilningur, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Dæmi frá síðustu árum við afgreiðslu kjarasamninga sýna þvert á móti að aðeins tugir atkvæða geta ráðið því hvort samningur er samþykktur eða fellur í atkvæðagreiðslu félagsmanna, segir hann.
Þess vegna er það meginatriði að greiða atkvæði um samninginn. Við sem bárum hitann og þungann af samningsgerðinni erum þess fullviss að ekki var hægt að ná lengra að þessu sinni í launa- eða réttindamálum. Það var deginum ljósara að efnahagsumhverfi kjarasamninganna nú var erfiðara en oftast áður. Há verðbólga og versnandi atvinnuástand framundan er ekki óskastaða samningamanna við kjarasamningsborðið. Eftir nærri hálfs árs þref töldum við okkur hafa náð því fram sem hægt var án átaka.
Mikilvægast af öllu var að ná fram hækkun lægri launa. Annar mikill ávinningur var að fá fram hækkun gagnvart þeim sem setið hafa eftir í launaskriði undanfarinna ára. Það á við um fjölda fólks á almennum vinnumarkaði. Jafnframt var okkur mikil nauðsyn á því að binda samninginn verðbólguviðmiðum til að geta framlengt hann ef vel gengur en sagt honum upp ef allt fer á verra veg.Af öðrum atriðum sem má nefna er verulega bættur orlofsréttur, stórhækkaðar tryggingabætur, aukinn réttindi vegna veikra barna, meira fé til menntunar og stórátak til að takast á við vaxandi örorku í landinu. Þá getur framlag stjórnvalda í skattamálum, vaxtabótum, barnabótum og húsaleigubótum skipt miklu máli fyrir fjölskyldur sem samhliða eru að fá kjarabætur í þessum samningum þó að þessar aðgerðir stjórnvalda séu ekki hluti kjarasamningsins.
En kjarasamningurinn er bara áfangi á leiðinni. Fyrsta árið er prófsteinn á hvort hann dugar út samningstímann. Þess vegna biðjum við nú launamenn að kynna sér samninginn og taka upplýsta afstöðu. Við vonumst auðvitað til þess að sem flestir verði okkur sammála. Fyrsti áfanginn er að búa til skjól fyrir þá sem minnst hafa og síðan áframhaldandi ávinning fyrir okkur öll með því að takast á við verðbólguna. Þetta á ekki síst við um fyrirtækin og þá umræðu sem þar hefur átt sér stað um að velta öllum kostnaði út í verðlagið. Ef við missum tök á efnahagsmálunum þá tapa allir.
Þess vegna er svo mikilvægt að þú nýtir þér atkvæðisrétt þinn.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar