Boðinn samþykkir sameiningu

14. 04, 2008

Boðinn samþykkti sameiningu með yfirgnæfandi meirihluta  

Framar okkar björtustu vonum

– segir Þórður Ólafsson, formaður Boðans

Þessi niðurstaða er framar okkar björtustu vonum, segir Þórður Ólafsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans en félagsmenn í Boðanum samþykktu í atkvæðagreiðslu að sameinast Eflingu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Atkvæði féllu þannig að 280 félagsmenn af 701 sem voru á kjörskrá greiddu atkvæði með sameiningu en 4 voru á móti. Ég tel að þessi niðurstaða sýni tvennt, segir Þórður. Fólkið í félaginu hér hefur greinilega metið það góða samstarf sem við höfum átt með Eflingu í samningamálum. Síðan er hitt að málið er vel undirbúið af félögunum og allir hér einhuga um að byggja upp stórt og öflugt félag með félagsmönnum Eflingar. Nú horfum við saman til framtíðar og aukinna réttinda félagsmanna. Við hlökkum til að taka þátt í þessu uppbyggingarstarfi áfram með Eflingu, segir Þórður.

Forsvarsmenn Eflingar-stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans hafa á undanförnum mánuðum rætt sameiningu félaganna. Aðalfundur Boðans á síðasta ári setti stefnuna á sameiningu og stjórn og trúnaðarráð Eflingar hefur fyrir sitt leyti samþykkt að ganga til viðræðna við Boðann um að sameina félögin. Sameiginlegur fundur forsvarsmanna félaganna hefur mótað farveg sameiningar og nú hefur atkvæðagreiðsla innan Boðans skorið með afgerandi hætti úr um afstöðu félagsmanna Boðans til sameiningar. 
      Með bráðabirgðaákvæðum sem lögð verða fyrir aðalfund Eflingar er gert ráð fyrir því að fulltrúar frá Boðanum komi í stjórn Eflingar og einnig fái Boðinn aðild að stjórnum sjóða Eflingar þar til nýjar stjórnir hafa verið kosnar samkvæmt lögum Eflingar.
      Þá er gert ráð fyrir því að áfram verði starfrækt skrifstofa sem Boðinn hefur rekið í Hveragerði þannig að félagsfólk í Boðanum á ekki að finna fyrir breytingu á þjónustu á svæðinu sjálfu en auk þess mun skrifstofa Eflingar í Reykjavík þjóna félagsfólki eftir þörfum.