Samningar við ríki og hjúkrunarheimili
Fundað með ríkisstjórninni
Að loknum fundi í morgun með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þ.e. forsætis-, utanríkis-, félagsmála- og fjármálaráðherra, ásamt formanni samninganefndar ríkisins eru bundnar ákveðnar vonir um að markvissar viðræður við samninganefnd ríkisins hefjist nú um helgina. Fundurinn var mjög jákvæður en skipst var á skoðunum um þau sameiginlegu markmið samningsaðila að leggja sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa. Í því samhengi voru umönnunarstörf nefnd og dregin fram sú staðreynd að meðaldagvinnulaun hjá þessum hópi eru langt undir meðaldagvinnulaunum hjá öðrum hópum. Það markmið ríkisstjórnarinnar að ná niður launamun kynjanna myndi einnig samrýmast því markmiði að leiðrétta sérstaklega laun þeirra sem starfa við umönnun en tæplega 90% þeirra sem starfa við umönnun í okkar hópi eru konur.
Félags- og tryggingamálaráðherra greindi frá því að hún hefði miklar væntingar til félagsliðahóps varðandi umönnun aldraða en um 300 manns hafa nú lokið því námi og um 80 manns eru í félagsliðanámi. Fyrirhugaður er fundur með ráðherranum á miðvikudag í næstu viku til að fjalla sérstaklega um félagsliðahópinn.