Nýr kjarasamningur við ríki til marsloka á næsta ári
Veruleg hækkun grunnlauna
Að loknum stífum fundahöldum í húsakynnum ríkissáttasemjara var gengið frá nýjum kjarasamningi við ríkið upp úr miðnætti í gær. Samningstíminn er til ellefu mánaða eða frá 1. maí 2008 til 31. mars 2009. Tekin var upp ný launatafla en launataxtar hækka að meðaltali um tæp 14% eða 20.300 kr.
Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu í ræstingu fá 17.000 króna uppbót sem verður greidd út 1. desember 2008.
Réttur foreldra til að vera hjá veikum börnum sínum var aukinn en nú hafa foreldrar rétt á 12 dögum á ári í stað 10 áður.
Þá mun launagreiðandi greiða 0,13% endurhæfingargjald á móti samskonar framlagi frá ríkissjóði. Til viðbótar er gert ráð fyrir framlagi frá lífeyrissjóði í sama hlutfalli frá árinu 2010. Tryggt var sambærilegt framlag til endurhæfingar og samið var um á almennum markaði. Markmiðið er að veita úrræði fyrir þá starfsmenn sem veikjast til lengri tíma og/eða slasast þannig að vinnugeta skerðist. Nýr endurhæfingarsjóður verður öflug stoð til að takast á við vaxandi örorku og styðja þá sem lenda í skertri vinnugetu til áframhaldandi starfa á vinnumarkaði. Framlag í sjúkrasjóð hækkar um 0,2% frá 1. janúar 2009 og fer því í 0,75%.
Orlofsuppbót fer í 24.300 kr. og desemberupbót í 44.100 kr.
Félagsmönnum verður nú kynntur samningurinn á næstu dögum og er stefnt að því að atkvæðagreiðslu verði lokið fyrir 20. júní.
Nánari upplýsingar má nálgast hér