Starfsmenn í mötuneytum og eldhúsum

10. 09, 2008


Starfsmenn í mötuneytum og eldhúsum

Tækifæri til að byggja upp menntun

-segir Margrét Sigbjörnsdóttir verkefnastjóri

Samtals hafa um hundrað þátttakendur komið á Fagnáskeiðin hjá Sæmundi Fróða  frá því kennsla hófst vorið 2005. Námið hefur einnig verið hvating til að halda áfram námi og nú í haust hefja 15 félagsmenn Eflingar nám í matartækni eftir að hafa lokið Fagnámskeiðunum. Þau eru að fullu metin sem hluti af námi matartækna og geta þannig orðið góður grunnur að framtíðarmennun á þessu sviði, segir Margrét Sigbjörnsdóttir í samtali við Eflingarblaðið. Hún bætir því við að þetta sé einstakt tækifæri fyrir félagsmenn Eflingar sem vinni í mötuneytum og tengdum störfum við matreiðslu að byggja upp menntun sína. 
Vorið 2005 hófst samstarf á milli Sæmundar fróða og Eflingar sem miðaði að því bjóða fram nám í  matvæla- og veitingagreinum sem væri sniðið að þörfum fólks sem starfar í þessum greinum.  Námsleiðin kallast Fagnám í matvæla- og veitingagreinum og skiptist í þrjú þrep:  Fagnám I, II og III.
Tilgangur námsins er að auka færni starfsfólks til að sinna störfum sínum í mötuneytum og eldhúsum og  til  að takast á við fjölbreytileg og síkrefjandi störf. Nú er gerð krafa um að þeir sem sjá um matargerð hafi ákveðna þekkingu á gildi hollustu og einnig færist í vöxt ýmiss konar ofnæmi og óþol sem verður að sinna af þekkingu.
Markmiðið er einnig að gefa fullorðnum aukin tækifæri til fagmenntunar á sviðinu. Einstaklingar sem ljúka námi á námskeiðunum fá nám sitt metið til námseininga í framhaldsskólum. Efling styrkir  félagsmenn sína fjárhagslega til að sækja námið og víða er það metið til  launa.
Fagnámskeið I og II eru tvær samtengdar lotur sem hvor um sig eru 60 kennslustundir. Að afloknu námi og námsmati hafa þátttakendur tekið samtals sjö einingar sem metnar eru inn í framhaldsskólann. Eftirtaldir áfangar eru kenndir á námskeiðunum: Næringarfræði, hreinlætis- og örverufræði, upplýsingatækni (tölvur), samskipti- og tjáning  og matreiðsla.
Fagnámskeið III skiptist í tvær lotur  samtals  80 kennslustundir sem metnar eru til 5 eininga. Í fyrri lotunni eru kenndir áfangarnir: Matreiðsluaðferðir  og matseðlafræði, en í seinni lotunni:  Matur og menning , hráefnisfræði  og matreiðsla.
Sæmundur fróði er símenntunarstöð í eigu Menntaskólans í Kópavogi og matvæla- og veitingasviðs IÐUNNAR fræðsluseturs.  Kennslan fer fram í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi.