Formaður Eflingar segir alla umræðu um þjóðarsáttarsamninga út í hött. Vinna við kjarasamninga sé hins vegar í gangi
Engin þjóðarsátt í gangi
– segir formaður Eflingar
Það er mikill misskilningur að hér sé einhver umræða í gangi um þjóðarsátt eins og við heyrum í fjölmiðlum. Bak við þessa umræðu er nákvæmlega ekki neitt, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Síminn hækkað nýlega allar gjaldskrár um 4%. Tryggingafélögin eru sífellt að hækka gjaldskrár sínar. Nýjasta útspil Orkuveitu Reykjavíkur um nærri 10% hækkun á gjaldskrá heita vatnsins er sameiginlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og Borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem iðnaðaráðherra hefur þegar staðfest hækkunina, segir hann. Á sama tíma og þessi ákvörðun Orkuveitunnar er tekin er ekki hægt að halda fund í borgarráði Reykjavíkur vegna utanlandsferðar borgarfulltrúa. Nær hefði verið að þeir hefðu verið að sinna vinnu sinni og komið í veg fyrir hækkunina, segir hann.
Síðan hafa Síminnog tryggingafélögin hækkað gjaldskrár sínar og verðlag er á mikilli ferð. Verðbólgan mælist nú um 14% og því miður er engin áhrifaöfl í þjóðfélaginu sem eru að verja stöðugleikann. Þess vegna er allt tal um þjóðarsátt út í hött, segir hann.
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala síðan um mikilvægi þess að halda niðri verðlagi. Það er ekki hægt að taka mark á þeim þar sem þetta eru bara innantóm orð. Nýlega hækkaði Síminn gjaldskrá sína um 4% og tryggingarfélögin hafa einnig hækkað gjöld sín að undanförnu. Allir þessir stóru aðilar eru að hleypa öllum kostnaðarhækkunum beint út í verðlagið. Þannig er ljóst að stórfyrirtæki og opinberir aðilar eru ekkert að leggja af mörkum til að halda hér niðri verðlagi, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Í reynd blasir það við að ef þetta heldur svona áfram, þá erum við að festast í 10% – 20% verðbólgu fram í tímann með þeirri gríðarlegu kjaraskerðingu sem endurspeglast í lækkandi kaupmætti og mikilli hækkun lánanna okkar vegna verðtryggingarinnar.