Ástandið í kjara- og efnahagsmálum framundan
Vantar pólitíska forystu
– segir Sigurður Bessason
Ég held að það sé öllum ljóst að staða til að framlengja kjarasamningana eftir áramótin í óbreyttri mynd er einfaldlega ekki fyrir hendi, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Samningar á almennum vinnumarkaði munu því að öllum líkindum losna eftir áramótin. Verðbólgan er komin úr böndum og ljóst að hún ein og sér er komin langt út fyrir forsendur kjarasamninganna. Það skiptir því verulega miklu máli að aðilar vinnumarkaðarins komi saman og ræði um hvað sé framundan og hvernig getum við lágmarkað þann skaða sem nú þegar blasir við. Við gerð síðustu samninga ræddi ríkisstjórnin um að efla allt samráð við aðila vinnumarkaðarins en því miður hefur það ekki gengið eftir. Það sem verra er að samhliða kreppuástandi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum höfum við búið við heimagerðan vanda á húsnæðismarkaði sem með hárri verðbólgu, miklum eldsneytishækkunum og veikum gjaldmiðli hafa veikt efnahagslífið og grafið undan kaupmætti fólksins. Það verður ekki í fljótu bragði séð hvernig launafólk kemst frá þessu án verulegra skakkafalla, segir Sigurður Bessason í viðtali við Eflingarblaðið.
Enginn heldur því fram að í dag séu til einhverjar skyndilausnir, segir Sigurður Bessason. En hitt er alveg skýrt að forysta landsmálanna er hjá ríkisstjórn á hverjum tíma. Meðan verðbólgan stígur upp í 14% og gengi íslensku krónunnar fellur um 30% þá er brýn nauðsyn á að rætt sé við fólkið um þá stöðu sem upp er komin og hvað sé til ráða. Það er eitt af því sem hefur skort í sumar, að forystumenn í landsmálum hafi samráð við fulltrúa launafólks og fyrirtækjanna til að meta hvað sé vænlegt að gera í stöðunni. Það er þessa pólitísku forystu sem okkur vantar sárlega núna.
Kaupmáttarskerðing hjá öllu launafólki
Gengisfall krónunnar hefur leitt af sér kaupmáttarskerðingu hjá öllu launafólki samhliða því að rekstrargrundvöllur fyrirtækja hefur stöðugt verið að þrengjast. Seðlabankinn hefur keyrt á gríðarlega háum stýrivöxtum yfir langan tíma sem aukið hefur á lánakostnað heimilanna samhliða því að kostnaðnum sem fallið hefur á fyrirtækin er velt útí verðlagið og yfir á neytendur. Sagt er að þetta eigi að auka aðhald og leiða á endanum til lækkunar verðbólgu. Vandinn er hins vegar sá að þessi vaxtastefna nær ekki nema til hluta samfélagsins því stór hluti fyrirtækja eiga öll sín viðskipti í erlendum gjaldmiðlum og eru jafnvel gerð upp í evrum svo áhrif þessarar stefnu nær að mestu til þeirra sem með engu móti geta tekið þetta á sig, segir Sigurður.
Skuldir heimilanna geta endað með fjöldagjaldþrotum
Ástandið í skuldamálum heimilanna er líka mjög alvarlegt. Fjöldi einstaklinga sem tóku lán eftir 2003 mun lenda í vandræðum. Bæði þeir sem tóku myntkörfulánin og sitja nú upp með fall krónunnar en ekki síður þeir sem boðið var uppá 4,15% vexti árið 2003 eftir að lánshlutfallið var hækkað upp í 80-100%. Þessi lán voru með ákvæðum sem heimila bönkum að endurskoða vaxtakjörin eftir 5 ár sem þýðir að vaxtakjörin geta hækkað um rúm 2% miðað við stöðuna í dag. Einstaklingar og fjölskyldur með tugmilljóna lán munu geta lent í verulegum vandræðum ef ekki gjaldþrotum.
Bíðum úrræða stjórnmálamanna
Þessi hækkun á lánahlutföllum var verk stjórnmálamanna sem hefur haft ótrúleg áhrif til hækkunar húsnæðisverðs sem aftur hefur leitt til mikillar verðbólgu. Það er því beðið eftir úrræðum stjórnmálamanna til þess að leysa okkur út þeirri stöðu sem þeir að hluta til hafa komið okkur í. Ef ekkert er að gert þá er ríkisvaldið að færa kostnaðinn af verðbólgunni, gengisfalli íslensku krónunnar og ástandið á húsnæðismarkaðnum yfir á fjölskyldurnar í landinu. Hluti af þessum vanda öllum er berskjölduð íslensk króna sem liggur vel við höggi á opnum alþjóðlegum fjármálamarkaði.
Tilbúin að ræða við stjórnvöld
Við sem höfum það hlutverk að fara með forystu fyrir stéttarfélögunum erum sannarlega tilbúin til að ræða við stjórnvöld þó þau hafi slegið á útrétta hönd okkar allt þetta ár. Við lítum svo á að það sé skylda okkar að leggja okkar af mörkum til að lágmarka tjón launþega í þessu ástandi og undirbúa jarðveginn fyrir nýja sókn í kaupmætti launafólks þegar okkur tekst að komast út úr þessari efnahagslægð. Það birtir öll él upp um síðir og við lítum á ástandið núna sem verkefni sem við verðum að taka þátt í að vinna okkur út úr, segir formaður Eflingar að lokum.