Störf fyrir íslensk fyrirtæki innanlands

24. 10, 2008

Efling vill mannaflsfrek verk á heimamarkað

Störf fyrir íslensk fyrirtæki innanlands

Á fjölmennum félagsfundi Eflingar um helgina beindi félagið þeim tilmælum til opinberra aðila að haga útboðum þannig að þau skapi störf fyrir íslensk fyrirtæki og starfsmenn þeirra hér innanlands. Ályktunin er að gefnu tilefni þar sem spáð er talsverðum samdrætti í framkvæmdum framundan og dæmi eru um að opinberir aðilar hafi með stærð og fyrirkomulagi útboða greitt fyrir aðkomu erlendra fyrirtækja hingað til lands meðan kreppuástand er að verða á byggingamarkaði hér.
Efling-stéttarfélag hvetur til þess að á þeim samdráttartímum sem framundan eru að fyrirtæki, sveitarstjórnir og stjórnvöld leiti allra leiða til að halda uppi atvinnustiginu í landinu.
Sérstökum tilmælum er beint til stjórnvalda og sveitarfélaga að beita sér fyrir mannaflsfrekum framkvæmdum nú þegar ljóst er að verkefnastaða á almennum vinnumarkaði fer hratt versnandi.
Einnig beinir Efling-stéttarfélag þeim tilmælum til sömu aðila að haga útboðum með þeim hætti að  opinberir aðilar skapi störf fyrir íslensk fyrirtæki og starfsmenn þeirra hér innanlands.