einstaklingsmiðuð þjónusta, segir Lára

14. 11, 2008

Fræðslufundur hjá faghópi félagsliða

Einstaklingsmiðaða þjónustu heim til aldraðra
– segir Lára Björnsdóttir

Það var fjölmennur og áhugasamur hópur sem mætti á fræðslufund faghóps félagsliða sem haldinn var þriðjudaginn 11. nóvember síðastliðinn.  Lára Björnsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu fór yfir nýtt skipulag og stefnu í öldrunarmálum.  Þá var áhugavert að hlusta á Fanneyju Friðriksdóttur og Lilju Eiríksdóttur félagsliða í stjórn faghópsins segja frá þeirra sýn á störfum heimaþjónustunnar.  Einnig fór Harpa Ólafsdóttir forstöðumaður kjaramálasviðs Eflingar yfir stöðu kjaramála hjá félagsliðum.
 

Í erindi Láru Björnsdóttur kom fram að alltof lengi hefði umræðan um málefni aldraða snúist um stofnanaþjónustu.  Því hefði félags- og tryggingamálaráðherra skipað ráðgjafahóp til að gera tillögur um helstu áherslur í málefnum aldraðra til næstu ára.  Niðurstaða úr þeim hópi var að bjóða ætti upp á einstaklingsmiðaða þjónustu heim og leggja ætti aukna áherslu á sjálfstæði og sjálfsforræði aldraðra.  Þá benti Lára á að viss vandkvæði fylgdu því að heilbrigðisþjónusta við aldraða hafi orðið eftir hjá heilbrigðisráðuneytinu þegar málefni aldraðra og fatlaða fluttust yfir á félagsmálaráðuneytið.  Það kom ekki síst í ljós þegar félagsliðar óskuðu eftir löggildingu á starfinu því þá var ekki klippt og skorið hvort að þau störf heyrðu undir félagsmálaráðuneytið eins og almenn umönnunarstörf eða hvort að leita ætti til heilbrigðisráðuneytisins.  Töluverðar umræður spunnust í lok erindis Láru um hvort að sækja ætti fastar að fá löggildingu á starfi félagsliða eða hvort að með aukinni Evrópuvæðingu ætti það ekki við.  Í því sambandi benti Lára á að á Norðurlöndum færu störf ekki í löggildingu.  Fundargestir voru þó sammála um að festa þyrfti störf félagsliða enn frekar í sessi og þar væru skýrar starfslýsingar mikilvægar.

 Það var mjög áhugavert að hlusta á hversu fjölbreytt störfin í heimaþjónustunni eru hjá félagsliðunum Fanneyju og Lilju.  Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma með einstaklingunum sem margir hverjir búa við mikla félagslega einangrun.  Voru þær Fanney og Lilja ekki í neinum vafa um að þar hefði félagsliðanámið komið að góðum notum þar sem að mikil áhersla var lögð á félags-, sið- og sálfræði.  Þá lýstu þær ánægju sinni með að búið væri að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu en þar myndu félagsliðar koma sterkir inn.

Harpa Ólafsdóttir fór yfir mismunandi launaröðun í stofnanasamningum sem taka mið af samningum ríkis og hjúkrunarheimila.  Þá kom einnig fram að meðalstarfsaldur félagsliða hjá Reykjavíkurborg er 15 til 16 ár en kjarasamningar við Reykjavíkurborg eru lausir 1. nóvember og lítið hefur miðað í kjarasamningsviðræðum.  Ljóst er að töluvert vantar upp á til að jafnsetja laun félagsliða hjá Reykjavíkur við sambærileg störf hjá ríki og hjúkrunarheimilum.  Mikill þrýstingur hefur verið settur á Kópavog og önnur sveitarfélög að setja störf félagsliða í starfsmat og standa nú vonir til að úr því rætist fljótlega.
Miklar líkur eru á að sérhæfðir starfsmenn sem höfðu leitað í betur launuð störf í góðærinu skili sér nú til baka í umönnunarstörf og verður því aukin ásókn um hvert starf sem losnar.  Þar munu félagsliðar hafa ákveðið forskot umfram þá sem minni menntun hafa.