Fyrstu 100 dagarnir frá hruninu
Engin heildstæð áætlun til
-segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar
Fjölmiðlar eru nú að taka saman ýmiss konar efni um reynsluna af fyrstu 100 dögum eftir bankahrunið. Formaður Eflingar segir að það sé stóralvarlegt mál að ennþá hefur engin heildstæð áætlun séð dagsins ljós af hálfu stjórnvalda um hvernig þau ætla sér að komast í gegnum efnahagserfiðleikana framundan. Hann fer hér yfir helstu sjónarmið um stöðuna og kröfur á hendur stjórnvöldum um úrbætur.
1. Fall bankanna.Ákvörðunin um að fella Glitni í upphafi var upphaf að röð illa undirbúinna ákvarðana þar sem stjórnvöld sáu ekki fyrir fall alls bankakerfisins, verðmætahrun allra peningastofnana, stórtap fjölskyldna og fyrirtækja og síðan hrun atvinnulífsins og fjöldaatvinnuleysi í kjölfarið.
2. Of langur tími til viðbragða. Allt of langan tíma tók að viðurkenna þá staðreynd að við Íslendingar kæmumst með engu móti út úr fjármála- og gjaldeyriskreppunni án utanaðkomandi aðstoðar. Dýrmætum tíma var sóað meðan verðmæti fyrirtækja og heimila brunnu upp eftir bankahrunið.
3. Engin heildstæð aðgerðaáætlun. Engin heildstæð aðgerðaáætlun hefur litið dagsins ljós enn þann dag í dag. Kallað er eftir slíkri áætlun. Aðgerðir stjórnvalda hafa því miður einkennst um of af viðbrögðum við upplýsingum úr bankahruninu og af þróun á alþjóðlegum peningamörkuðum, fremur en vandaðri áætlun um það hvernig á að bregðast við vandanum. Ljóst er að Seðlabankinn, ríkisstjórn og Fjármálaeftirlitið hafa ekki unnið saman á undanförnum árum sem hlýtur að teljast alvarlegur áfellisdómur yfir þessum aðilum.
4. Upplýsingaskyldu áfátt. Upplýsingaskyldu til almennings hefur verið stórlega áfátt allan tímann frá hruni bankanna. Það hefur tekið margar vikur og mánuði að draga fram mikil hagsmunamál almennings svo sem um stöðu einstakra inneignarreikninga í bankastofnunum.
5. Ráð um erlenda sérfræðinganefnd hunsuð. Það hefur tekið á fjórða mánuð að setja rannsóknarnefnd af stað til að rannsaka bankahrunið og ekki hefur verið farið að ráðum fjölmargra sérfræðinga að rannsóknarnefnd með erlendum, sérhæfðum sérfræðingum.
6. Endurskoðun á gjaldmiðlamálum. Langflestum sérfræðingum ber saman um að Íslendingar verða nú að skipta um gjaldmiðil til að forðast nýjar kollsteypur í efnahagsmálum landsins.
7. Lækkun vaxta strax. Ef ekki á að keyra fyrirtækin og almenning í þrot þá þarf að lækka stýrivexti og almenna vexti verulega.
8. Stóra verkefnið– að hindra það að fjöldi fyrirtækja verði gjaldþrota á næstu mánuðum með tilheyrandi auknu fjöldaatvinnuleysi. Þarf að tímasetja mannaflsfrekar framkvæmdir sem slá á atvinnuleysið og gefa launamönnum og fyrirtækjum framtíðarsýn um aukna atvinnu.
9. Gjaldþrot heimila framundan.Þrátt fyrir fjölda hugmynda og tillagna m.a. um hækkun vaxtabóta og björgunarsjóð heimilanna til að draga úr hættunni á fjöldagjaldþrotum heimilanna, hafa stjórnvöld ekki gripið til nema takmarkaðra aðgerða til að hafa áhrif á stöðu þessara mála.
10. Ábyrgð. Ennþá hefur enginn, hvorki embættismenn né stjórnmálamenn, sem bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum, tekið á sig ábyrgð vegna fjármálakreppunnar og hruns atvinnulífsins. Þetta uppgjör þarf að fara fram.
11. Staða kjarasamninga á þessu ári. Vegna hruns bankanna, gjaldþrota fyrirtækja, erfiðrar stöðu annarra fyrirtækja á almennum og opinberum markaði og veikingar íslensku krónunnar er kaupmáttur vinnandi fólks á hraðri niðurleið. Atvinnuleysi hefur vaxið hraðar á þremur mánuðum en dæmi eru um í sögu lýðveldisins. Við þessar aðstæður skiptir höfuðmáli að vel takist til við um lausn heildarkjarasamninga aðila vinnumarkaðarins sem eru lausir nú í febrúar. En stjórnvöld hafa gert stöðu kjarasamninga við þessar aðstæður enn erfiðari með því að hunsa viðhorf samtaka launafólks við gerð fjárlaga. Þá hafa stjórnvöld aukið enn á vandann með hækkun gjaldtöku á ýmsum nauðsynjum sem síðan hafa hækkað verðtryggingarþátt lána. Við þessar aðstæður skiptir höfuðmáli að vel takist til við um lausn heildarkjarasamninga aðila vinnumarkaðarins sem eru lausir nú í febrúar.