LSH heldur fast við uppsagnir í ræstingu
Óskiljanleg harka
-segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar
Efling-stéttarfélag hefur mótmælt harðlega þeirri ákvörðun Landspítalans í byrjun mánaðarins að segja upp öllum 30 starfsmönnum í ræstingu á Borgarspítalanum í Fossvogi. Þessi ákvörðun var tilkynnt á fundi með starfsmönnum þar sem jafnframt var tilkynnt að bjóða ætti þessi störf út á Evrópska efnahagssvæðinu. Sigurður Bessason, formaður Eflingar segir það óskiljanlegt hve stefna LSH er ósveigjanleg, sérstaklega með tilliti til aðstæðna á vinnumarkaðnum þar sem verið er með þessu að senda hóp starfsmanna beint á atvinnuleysisskrá. Hann segir sjálfgefið að taka málið upp við nýjan heilbrigðisráðherra.
Af hálfu spítalans kemur fram að þessi ákvörðun hafi verið tekin fyrir ári síðan en það breytir engu um það að það er verið að senda hóp starfsmanna beint á atvinnuleysisskrá. Búið er að funda með yfirmönnum spítalans í tvígang og nú síðast með starfandi forstjóra LSH, Birni Zoega, þar sem þess hefur verið krafist að uppsagnirnar yrðu dregnar til baka strax. Þess var krafist að starfsmenn héldu störfum sínum þó svo sjúkrahúsið væri að fara í gegnum erfiðan niðurskurð og njóti þannig jafnræðis á við aðra starfsmenn.
Það er óskiljanleg harka í þessu, segir Sigurður Bessason, að ekki sé hægt að hrófla við fyrri ákvörðun í ljósi aðstæðna á vinnumarkaðnum, segir hann. Þessi ósveigjanleiki er framkvæmdastjórn LSH ekki til sóma. Í starfsmannahópnum eru einstaklingar með langan starfsaldur sem hafa þjónað sjúkrahúsinu á þeim tímum þegar hvað erfiðast hefur verið að fá fólk til starfa. En nú þegar samdrátturinn hittir okkur fyrir af fullum þunga þá þykir stjórnendum við hæfi að ná hagræðingunni út á þeim sem minnst mega sín, segir hann.
Efling – stéttarfélag gerir þá kröfu að þessar uppsagnir verði dregnar til baka. Við munum taka þetta mál upp við nýjan heilbrigðisráðherra og væntum liðsinnis í ljósi yfirlýsinga stjórnmálamanna að allt verði gert til að vernda störfin í landinu. Þessi störf þarf að vinna og fólkið sem unnið hefur þessi störf er tilbúið að sinna þeim áfram. Eina sem þarf er að framkvæmdarstjórn LSH dragi fyrri ákvörðun til baka og taki þar með fullan þátt í að vernda störfin í landinu.
Það væri eitt væri skref í viðsnúningi í því mikla atvinnuleysi sem framundan er.