Harpa Ólafsdóttir hagfræðingur Eflingar, Sigurður Bessason formaður Eflingar, Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra, Marilin Biye Obiang og Kristín Jóhannesdóttir starfsmenn Landspítalans í Fossvogi
Uppsögnum í Fossvogi mótmælt
Jákvæðar undirtektir heilbrigðisráðherra
Tveir talsmenn 35 starfsmanna í ræstingu á LSH í Fossvogi sem að sagt var upp störfum í byrjun janúarmánaðar funduðu í morgun með heilbrigðisráðherra, ásamt formanni og hagfræðingi Eflingar. Stjórnendur LSH hafa tilkynnt að bjóða eigi út ræstingarnar á Evrópska efnahagssvæðinu. Efling hafði gert þá kröfu ítrekað við stjórnendur spítalans að uppsagnir yrðu dregnar til baka. Félagið telur að með þessari ákvörðun sé verið að senda hóp starfsmanna beint á atvinnuleysisskrá. Heilbrigðisráðherra tók við áskorun og undirskriftarlistum, þar sem skorað var á hann að beita sér fyrir því að LSH falli frá uppsögnunum. Ráðherrann tók vel í beiðni Eflingar og sagði jafnframt að hann hefði nú þegar komið því á framfæri við forstjóra LSH að fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir LSH ættu ekki að beinast gegn þeim sem hefðu lægstu kjörin.
Stór hópur þessara starfsmanna er með langan starfsaldur að baki og hefur verið í starfi á þeim tímum þegar hvað erfiðast hefur verið að fá fólk til starfa. Nú þegar gríðarlegur samdráttur er í atvinnulífinu telja stjórnendur við hæfi að beita hagræðingu á starfsmenn sem eiga hvað erfiðast um varnir.
Ný ríkisstjórn hefur á síðustu dögum kynnt þá stefnu að stjórnvöld, sveitarstjórnir og atvinnurekendur geri allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda störfin í landinu. Þannig verði hægt að ná árangri í því gríðarlega atvinnuleysi sem nú herjar á þjóðina.
Ljóst er að uppsögn 35 starfsmanna á LSH við þessar aðstæður sem nú ríkja er um leið ákvörðun um að senda stóran hóp beint á atvinnuleysisskrá sem gengur þannig skýrt gegn stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.
Þau störf sem verið er að vinna í ræstingum á LSH í Fossvogi þarf áfram að sinna. Störfin hverfa ekki. Það að eyða miklu fé og tíma í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu til að ná fram takmarkaðri hagræðingu, hlýtur að ganga gegn öllum markmiðum stjórnvalda um að vernda störfin auk þess sem hér er vegið að launalægsta fólkinu sem er í störfum á LSH.
Á fundinum tók heilbrigðisráðherra við áskorun og undirskriftarlistum, þar sem skorað var á ráðherrann að hann beiti sér fyrir því að LSH falli frá uppsögnum ræstingarfólks á LSH í Fossvogi. Ráðherrann tók vel í beiðni Eflingar og sagði jafnframt að hann hefði nú þegar komið því á framfæri við Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra LSH að hann væri alveg skýr í sinni afstöðu að fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir Landspítalans ættu ekki að beinast gegn þeim sem hefðu lægstu kjörin.