Borgin víkur starfsmanni á leikskóla úr starfi
Ásakanir á Eflingu út í hött
Reykjavíkurborg ákvað í gær að víkja starfsmanni leikskóla úr starfi sem brotið hafði af sér í starfi gagnvart barni á leikskólanum. Í fjölmiðlum í dag og í gær kemur fram að Efling-stéttarfélag hafi átt aðild að málinu á þann hátt að verja brot starfsmannsins sem hafði í janúar sl. fengið áminningu vegna þessa atburðar. Efling-stéttarfélag harmar þennan fréttaflutning sem byggjast á ósönnum fullyrðingum.
Ásakanir á hendur Eflingu- stéttarfélagi í þessu máli eru á engum rökum reistar. Aðkoma stéttarfélagsins að málum sem þessum er sú að aðaltrúnaðarmaður eða staðgengill hans frá Eflingu mætir á vinnustað til að gæta þess að öll sjónarmið málsins komi fram áður en starfsmanni er veitt áminning. Efling-stéttarfélag frétti síðan fyrst af áminningunni sjálfri eftir að hún var veitt. Það var Reykjavíkurborg sem ákvað að víkja starfsmanninum úr starfi.
Hlutverk stéttarfélagsins er að gæta þess að starfsmaðurinn njóti þeirra réttinda sem honum ber samkvæmt kjarasamningum. Efling-stéttarfélag lítur á brot gagnvart börnum á leikskólum sem hörmulega atburði. Það breytir engu um það að allir starfsmenn á opinberum vinnustöðum eiga sinn andmælarétt. Í þessu máli hefur verið reynt að sá fræjum tortryggni gagnvart stéttarfélaginu og félagið harmar að fjölmiðlar hafi flutt slíkar fréttir án þess að leita heimilda á skrifstofu félagsins um aðkomu þess að málinu.