Yfirlýsing frá Granda hf
Starfsfólk HB Granda fær áður umsamdar launahækkanir
HB Grandi hefur ákveðið að greiða starfsfólki fyrirtækisins þær launahækkanir sem samið hafði verið um að tækju gildi 1. mars áður en aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um að fresta þeim. Ákvörðunin hefur þegar verið kynnt starfsfólki fyrirtækisins.
HB Grandi er í Samtökum atvinnulífsins og þar með sjálfkrafa aðili að samningnum um áðurnefnda frestun. Efling-stéttarfélag skoraði nýverið á fyrirtækið, í ljósi afkomu þess, að greiða áður umsamdar hækkanir. HB Grandi hefur í dag á fundi með formanni og skrifstofustjóra Eflingar-stéttarfélags og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins svarað erindinu jákvætt. Ákvörðunin nær til allra starfsmanna fyrirtækisins sem frestunin náði yfir, annarra en æðstu stjórnenda þess og gildir frá 1. mars.
HB Grandi hefur undanfarið lagt í umtalsverðar fjárfestingar til þess að styrkja stoðir félagsins og er m.a. að reisa nýja fiskmjölsverksmiðju á Vopnafirði. Slíkar framkvæmdir eru fjármagnsfrekar og fyrirtækjum því nauðsynlegt að greiða hluthöfum a.m.k. lágmarksarð til þess að halda eigin fé inni í fyrirtækjunum og koma í veg fyrir of mikla skuldsetningu.
Stjórnendur HB Granda harma þá neikvæðu umræðu, sem verið hefur um fyrirtækið undanfarna daga enda hafa þeir kappkostað að eiga góð samskipti við starfsfólk félagsins og verkalýðsforystuna. Það er von þeirra að þessi ákvörðun skapi frið um rekstur fyrirtækisins sem er mikilvægur fyrir starfsfólkið og þjóðarbúið í heild.