Ársfundur faghóps félagsliða

   Ída Atladóttir, forstöðumaður Roðasala kynnir starfsemi Roðasala

Ársfundur félagsliða

Áhugaverð þjónusta við heilabilaða

Áhugavert var á ársfundi Faghóps félagsliða í gærkvöldi að hlusta á metnaðarfulla starfsemi Roðasala en Ída Atladóttir, forstöðumaður fór yfir starfsemina þar og hvernig félagsliðar kæmu þar inn í.  Þjónustan er miðuð við þarfir heilabilaðra skjólstæðinga og aðstandendur þeirra.  Lögð er mikil áhersla á félagslega þáttinn og nálægð, ásamt líkamlegum þörfum. Þá var grípandi að hlusta á frásögn Jónu Hrannar Bolladóttir af upplifun aðstandenda heilabilunarsjúklings en faðir hennar greindist með heilabilun þegar hann var einungis 64 ára. Fleira áhugavert efni var á fundinum sem hér fer á eftir.

Fjórði ársfundur faghóps félagsliða var haldinn í gærkvöldi 31. mars 2009. 
Fanney Friðriksdóttir fór yfir starfsemi félagsins á árinu og Jónína Sigurðardóttir fór yfir kosningu stjórnar en bæði Fanney og Jónína gáfu kost á sér í stjórnina, ásamt Lilju Eiríksdóttur, Jenný Jensdóttur og Ingu Kristínu Gunnarsdóttur.  Var sú kosning samþykkt einróma.

Áhugavert var að hlusta á metnaðarfulla starfsemi Roðasala en Ída Atladóttir, forstöðumaður fór yfir starfsemina þar og hvernig félagsliðar kæmu þar inn í. 
Þjónustan er miðuð við þarfir heilabilaðra skjólstæðinga og aðstandendur þeirra.  Lögð er mikil áhersla á félagslega þáttinn og nálægð, ásamt líkamlegum þörfum. 
Fram kom að félagsliði væri nú væntanlegur til starfa í dagþjálfunina og væri önnur staða félagsliða laus þar sem ákveðið hefði verið að ráða félagsliða í starf sem áður hefði verið unnið af sjúkraliða.  Ída nefndi félagsliðar væru lykilstétt þegar kæmi að félagslega þættinum í umönnun, þar sem að mikil áhersla væri lögð á það í félagsliðanáminu en einmitt þessa þætti vantaði bæði hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

Grípandi frásögn
Séra Jóna Hrönn Bolladóttur var með mjög grípandi frásögn af upplifun aðstandenda heilabilunarsjúklings en faðir hennar greindist með heilabilun þegar hann var einungis 64 ára.  Oft tekur langan tíma að greina sjúkdóminn og þá ekki síst fyrir aðstandendur að átta sig á því hvað um er að ræða.  Jóna Hrönn taldi mjög mikilvægt að staðið væri rétt að því þegar sjúklingar og aðstandendur fá sjúkdómsgreininguna.  Ef maki er fyrir hendi að kalla hann þá á fund ásamt sjúklingnum og greina þeim frá hvernig ástatt er.  Dagvistunarúrræði skipta mjög miklu máli þegar heilabilaðir búa heima, bæði fyrir sjúklinginn sjálfan og aðstandendur.  En þar mætti oft fara betur yfir bakgrunn hvers og eins, því að oft á tíðum er dagskráin of hópmiðuð og henta þá alls ekkert öllum.  Heilabilaðir hafa áfram ólíka skapgerð og þarfir.

Ráð til aðstandenda
Þá nefndi Jóna Hrönn að það væri mjög gott að búa til bók með sögu minnissjúklingsins.  Þá lagði hún áherslu á að aðstandendur fengju að ganga inn í hjúkrunina og að taka viðkomandi eins oft heim og hægt væri.  Þegar bara snertingin væri eftir í lokin þá er svo mikilvægt að aðstandendur sinntu því.  Skiptir aðstandendur ekki síður máli einmitt þegar hinn aldraði er horfinn frá og aðstandendur líta til baka hvernig síðustu árin voru og viðskilnaður við einstaklinginn var. 
Félagsliðar ættu að vera ófeimnir að benda aðstandendum á hvernig þeir gætu komið að umönnun og aðbúnað við einstaklinginn.

Ný viðbót í heimaþjónustu
Að loknu kaffihléi kom Ásta Þórarinsdóttir frá fyrirtækinu Sinnum og kynnti nýja viðbót í heimaþjónustu en þau sinna á annað hundrað heimilum hér á höfuðborgarsvæðinu.  Meginmarkmiðið er að sinna fólki sem er heima og er því ekki farið inn á hjúkrunarheimili.  Megintekjustofninn er frá opinberum aðilum.  Þjónustan miðast ekki eingöngu við aldraða heldur einnig ungt fólk sem er t.d. að jafna sig eftir krabbameinsmeðferð.  Sinnum er með úrvals liðsheild sem leggur sig fram um að mæta ólíkum þörfum notenda svo sem hjúkrunaraðstoð og þrif.
Mánaðarlega eru fræðslukvöld þar sem allir starfsmenn hittast og miðla af sinni reynslu eða fá fræðslu frá utanaðkomandi.  Þjónustustjórinn fer alltaf inn á heimilið og gefur sér góðan tíma að koma nýjum starfsmanni inn í störfin. Starfsmenn eru nú um 13 manns.  Fram kom að það vantar einn góðan starfsmann og væri því kjörið fyrir félagsliða að sækja um.