1. maí ávarp 2009
Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík
BSRB
Bandalags háskólamanna
Kennarasambands Íslands
og
Sambands íslenskra framhaldsskólanema
Byggjum réttlátt þjóðfélag
Hrun fjármálafyrirtækja og hömlur á gjaldeyrisviðskipti hafa valdið miklum búsifjum og leitt til keðjuverkandi hruns í atvinnulífinu með atvinnuleysi og þrengingum. Við þessar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að jafna kjörin í landinu og styrkja innviði samfélagsins. Öflugt velferðarkerfi gerir okkur kleift að standa af okkur áföllin og aðeins með samstöðu og samheldni mun þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum enda undirstöður íslensks efnahagslífs traustar og á þeim má byggja til framtíðar. Forsenda samstöðunnar er jöfnuður og félagslegt réttlæti. Kjarabilið hefur farið ört breikkandi, þar með talið kynbundið launamisrétti. Það ber vott um ófyrirleitni og algert dómgreindarleysi þegar kallað er eftir samstöðu lágtekjufólks án þess að heita jafnframt stuðningi við róttækar jöfnunaraðgerðir. Slíkt hefur holan hljóm og er til marks um hræsni. Því er alfarið hafnað að almennt launafólk verði eitt látið bera allan herkostnaðinn af óráðsíu og bruðli undanfarinna ára.
Í dag eru hátt í tuttugu þúsund Íslendingar atvinnulausir. Heilu atvinnugreinarnar eru í lamasessi og þúsundir launafólks sjá enga möguleika á nýjum störfum á næstu mánuðum. Fjöldi kraftmikilla fyrirtækja er gjaldþrota eða á leiðinni í greiðsluþrot. Margar fjölskyldur standa nú frammi fyrir því að eiga minna en ekki neitt í íbúðarhúsnæði sínu. Lífeyrissjóðir okkar, Íbúðalánasjóður og fjármálakerfið allt hefur orðið fyrir þungu höggi. Á þessu ári og því næsta munu margir lífeyrissjóðir þurfa að skerða réttindi félagsmanna sem áratugum saman hafa safnað lífeyri til efri áranna. Sjóðir sveitarfélaganna og ríkisins standa frammi fyrir því að skerða ýmsa þjónustu, hækka skatta eða safna skuldum.
Þetta er ekki glæsileg framtíðarsýn. Engu að síður er hún það sem Íslendingar þurfa að horfast í augu við. Íslenska efnahagshrunið varð ekki aðeins vegna þess að heimurinn í kringum okkur hrundi. Kerfishrunið hér innanlands varð fyrst og fremst vegna gríðarlegra mistaka. Þar er átt við einkavæðingu bankanna, siðleysi stjórnenda þeirra við lánveitingar, krosseignatengsl stórfyrirtækjanna sem mörg hver féllu eins og spilaborgir við hrun bankakerfisins, eftirlitsleysi Fjármálaeftirlitsins og ótrúlegt andvaraleysi, úrræðaleysi og rangar ákvarðanir Seðlabankans og ríkisstjórnar Íslands í aðdraganda hrunsins. Allt þetta var bein afleiðing græðgi sem nýfrjálshyggjan kynti undir. Íslenskt samfélag þarf á sáttargjörð að halda. Það þarf að moka flórinn og þrífa skúmaskotin. Í því efni er meðal annars skýlaus krafa almenns launafólks í landinu að þeir einstaklingar sem hér stjórnuðu för, bæði í stjórnmálum og viðskiptalífi, verði látnir sæta fullri ábyrgð, verði ákærðir ef efni standa til og dregnir fyrir dóm.
Kreppan hér á landi varð alvarleg vegna þess að hún var allt í senn, bankakreppa, gjaldeyriskreppa og hugarfarskreppa, nærð af græðgi og siðleysi. Verkefnin sem íslensk alþýða stendur frammi fyrir eru gríðarleg. En þau eru gerleg svo lengi sem launafólk hafnar undirferli og siðleysi auðmagns og stjórnmála. Verkefnin eru meðal annars; endurreisn heimilanna með sanngjörnum hætti, árangursríkar aðgerðir gegn atvinnuleysi, endurreisn fjármálakerfisins og fyrirtækjanna, endurheimt þjóðarinnar á öllum sameiginlegum náttúruauðlindum og trygging fyrir því að auðmagnið og ofurauðmenn geti aldrei sölsað þær undir sig aftur, tafarlaus lækkun vaxta og endurskoðun verðtryggingar, stöðugleiki í opinberum rekstri, sanngjarnar greiðslur og greiðslubyrði af erlendum skuldum, stöðugleiki í peningamálastefnu og traust mynt þjóðinni til handa sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum og á gjaldeyrismarkaði.
Nágrannalöndin búa mörg við fjármálakreppu en ekki gjaldeyriskreppu. Stjórnmálamenn hafa allt of lengi lokað augunum fyrir því að íslenska krónan er ekki lengur gjaldgeng í myntsamfélagi þjóðanna sem sýnir sig m.a. í því að íslenskar fjármálastofnanir tóku stöðu gegn krónunni og stuðluðu þar með að hruni fjármálakerfisins.
Vaxtastigið og verðtrygging er sérstakt úrlausnarefni. Háir vextir og óðaverðbólga ógna nú fjárhagslegu öryggi margra fjölskyldna. Vaxtabyrði heimilanna þyngdist verulega vegna verðtryggingarinnar á óðaverðbólgutímanum í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Þegar kaupmáttur fer þverrandi í ofanálag er þess skammt að bíða að fjöldi fólks geti ekki staðið í skilum og áhvílandi lán á íbúðarhúsnæði verði langt umfram mögulegt söluverð. Við þessar aðstæður er brýnt að gripið verði nú þegar til róttækra ráðstafana. Þar skiptir höfuðmáli að létta skuldaklyfjarnar sem misgengið í kjölfar hrunsins hafði í för með sér. Í því sambandi þarf að taka verðtryggingu íbúðalána til endurskoðunar enda byggir hún á þriggja ára gömlu neyslumynstri sem engan veginn endurspeglar gjörbreyttar aðstæður í dag.
Huga ber að fleiru en okkar eigin vandamálum.
Ekkert lát er á stríðsátökum í heiminum. Í vetur varð heimurinn vitni að hryllilegum stríðsaðgerðum Ísraelshers gegn Palestínumönnum sem haldið var í gíslingu á Gaza. Verkalýðshreyfingin fordæmir framkomu Ísraela á Gaza og vill að beitt sé öllum tiltækum ráðum til að knýja þá til samninga þar sem réttur Palestínumanna sé virtur.
En ógnaröldin ríkir víðar. Enn er barist í Írak, Afganistan, Tíbet og í ýmsum ríkjum Afríku. Verkalýðshreyfingin leggur áherslu á mikilvægi mannréttinda. Þar megum við aldrei fallast á neinn afslátt hvar sem er í heiminum. Íslendingar hafa stöðu til að vera í fararbroddi sem herlaus og friðelskandi þjóð. Rödd friðar og mannréttinda á að heyrast meira frá Íslandi en eftirsókn eftir stöðu meðal helstu hervelda heims. Slíkt er sókn eftir vindi. Verkalýðshreyfingin styður því hugmyndir um að Varnarmálastofnun verði lögð niður og kröftunum beint í önnur þarfari verk, t.d. með því að auka þróunaraðstoð Íslendinga. Þar getum við lagt miklu meira af mörkum.
Á tímum sem þessum er mikilvægt að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins. Þar eru mikilvægustu stoðirnar menntun og heilbrigðismál. Með öflugum stuðningi við menntun á öllum stigum samfélagsins, verkmenntun og starfsmenntun, menntun á framhalds- og háskólastigi erum við að búa okkur undir framtíðina. Í heilbrigðismálum er ljóst að grípa verður til aðhalds en það skiptir sköpum hvernig það er gert og verður að gerast í samstarfi og samráði við heilbrigðisstarfsfólk og notendur þjónustunnar.
Í þessari stöðu gerir verkalýðshreyfingin harðar kröfur til stjórnvalda
• Við krefjumst þess að aðhaldsaðgerðir stjórnvalda bitni ekki á þeim sem við lökust kjör búa.
• Við krefjumst þess að grunnþjónusta, eins og heilbrigðisþjónusta og menntun, verði ekki skert.
• Við krefjumst þess að rannsókn á aðdraganda bankakreppunnar verði unnin á gagnsæjan hátt þannig að almenningur geti fylgst með hverju stigi rannsóknarinnar.
• Við krefjumst refsinga yfir þeim sem báru ábyrgð á hruni bankakerfisins og fyrirtækjanna með ábyrgðarlausri lánafyrirgreiðslu, sjálftöku lána hjá eigin fjármálastofnunum og ofurlaunakjörum sem engar forsendur voru fyrir.
• Verkalýðshreyfingin krefst þess að stjórnvöld, bæði ríkisstjórn og sveitarstjórnir sameinist um að halda uppi eins mikilli atvinnu og kostur er til að draga úr atvinnuleysi.
• Verkalýðshreyfingin krefst þess að stjórnvöld komi með raunhæf úrræði til að mæta þeim húseigendum sem vegna hrunsins eru að tapa öllu.
• Það verður engin sannleiks- og sáttanefnd á Íslandi fyrr en þeir sem báru ábyrgð á kreppunni hafa svarað til saka fyrir misgjörðir sínar.
Framundan eru nú viðræður allra heildarsamtaka launamanna á vinnumarkaði, atvinnurekenda og ríkisvaldsins. Þar hlýtur stóra krafan að vera um félagslegt réttlæti. Sú krafa gengur fyrst og fremst út á að ná sáttum í þjóðfélaginu á forsendum almennings, launafólks og heimilanna í landinu. Það er einnig krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnvöld tryggi hér sama stöðugleika og sambærileg kjör á húsnæðislánum og almenningi býðst í nágrannalöndunum. Finna þarf leiðir til að koma heimilunum út úr vítahring hárra vaxta og verðtryggingar.
Við viljum nýtt Ísland þar sem ný gildi verða höfð í hávegum. Þessi gildi eru reyndar ekki ný. Þau eru aldagömul. Gildi jafnréttis, frelsis og bræðralags. Gildi samhjálparinnar sem eru grundvöllur velferðarsamfélagsins. Þetta eru þau grunngildi sem verkalýðshreyfingin hefur byggt á frá upphafi. Verjum velferðina. Virkjum lýðræðið, upprætum spillinguna og byggjum upp samfélag jafnréttis, frelsis og bræðralags.
F.h. Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík
Guðmundur Þ Jónsson (sign.)
Vignir Eyþórsson (sign.)
Ísleifur Tómasson (sign.)
Hafsteinn Eggertsson (sign.)
Jóh. E. Vilhelmsdóttir (sign.)
F.h. BSRB
Þórarinn Eyfjörð (sign.)
Þuríður Einarsdóttir (sign.)
F.h. Bandalags háskólamanna
Páll Halldórsson (sign.)
F.h. Kennarasambands Íslands
Sigrún Grendal (sign.)
F. h. Sambands íslenskra framhaldsskólanema
Ómar Örn Ólafsson (sign.)
Dagskrá 1. maí 2009 í Reykjavík
• Safnast saman á Hlemmi kl. 13.00.
• Hljómsveit Sigtryggs Baldurssonar leika slagverkstónlist.
• Gangan leggur af stað kl. 13.30.
• Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika fyrir göngu.
• Gengið niður Laugaveg, Bankastræti, Austurstræti og inn á Austurvöll.
• Leikarar verða með örræður meðan gangan stendur yfir.
• Útifundur á Austurvelli hefst kl. 14.10.
• Útifundur lýkur kl. 15.00.
Tónlist
Lúðrasveit Verkalýðsins, Lúðrasveitin Svanur og 200.000 Nagbítar taka lagið.
Ávarp fundarstjóra
Súsanna Vilhjálmsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina.
Ræða
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Tónlist
200.000 Naglbítar.
Ræða
Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins.
Tónlist
200.000 Naglbítar.
Ávarp
Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Samband íslenskra framhaldsskólanema.
Tónlist
200.000 Nagbítar og Lúðrasveitir leika og syngja Maístjörnuna.
Fundarstjóri slítur fundi ,,Internationalen” sunginn. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika undir.
Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík
BSRB
Bandalag háskólamanna
Kennarasamband Íslands
Samband íslenskra framhaldskólanema
Að loknum hátíðarhöldunum býður Efling – stéttarfélag upp á kaffi í Valsheimilinu á Hlíðarenda – Vodafone höllinni. Fyrir þá sem ekki vita hvar Valsheimilið er skal tekið fram að ekið er í áttina að Hótel Loftleiðum og beygt til hægri rétt áður en komið er að hótelinu.