Aðalfundur Eflingar opnar á frekari sameiningar
Könnunarviðræður um frekari sameiningu við Flóann
Fjölmennur aðalfundur Eflingar-stéttarfélags í gærkvöldi opnaði á frekari sameiningar stéttarfélaga á svæði Flóafélaganna og Reykjanesi. Frumkvæði að könnunarviðræðum um sameiningu á Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur með nýrri aðalfundarsamþykkt í vikunni og Efling svaraði þessu í gærkvöldi með jákvæðu útspili af hálfu félagsins. Þá samþykkti fundurinn einnig að umræður yrðu hafnar um skipulagsmál innan ASÍ og SGS sem hefðu það að markmiði að ná fram hagræðingu og öflugri félagslegri stöðu stéttarfélaganna á Flóasvæðinu.
Sjá tillögurnar
Tillaga um heimild til könnunarviðræðna við VSFK og önnur félög um sameiningarmál
Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags haldinn 28. apríl 2009 samþykkir að veita stjórn félagsins heimild til könnunarviðræðna við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis í ljósi aðalfundarsamþykktar VSFK. Jafnframt er heimilt að ganga til viðræðna við önnur félög á svæðinu óski þau eftir viðræðum. Niðurstöður viðræðna verði lagðar fyrir trúnaðarráð og félagsfund í Eflingu þegar þær liggja fyrir.
Tillaga um skipulagsmál innan ASÍ
Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags haldinn 28. apríl 2009 samþykkir að heimila stjórn Eflingar-stéttarfélags að taka upp viðræður við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og önnur stéttarfélög innan SGS um skipulagsmál Starfsgreinasambandsins með það að markmiði að ná fram hagræðingu og öflugri félagslegri stöðu stéttarfélaganna á Flóasvæðinu.