Þaulvanir talningamenn Eflingar fara yfir kjörgögn og telja atkvæðin í gær. Guðmundur Þ Jónsson, Þórir Guðjónsson, Sigurrós Kristinsdóttir og Elín Baldursdóttir að störfum.
Breytingar á kjarasamningi samþykktar
Samningar við hjúkrunarheimili enn í biðstöðu
Mikill meirihluti samþykkti kjarasamninga í póstatkvæðagreiðslum um breytingar á kjarasamningum hjá Reykjavíkurborg og nágrannasveitarfélögum. Breytingarnar voru með sömu krónutöluhækkun á lægstu taxta og samið var um á almenna vinnumarkaðnum fyrr í sumar. Þannig hækka taxtar að 180.000.- kr. um 6.750.- kr. afturvirkt frá 1. júlí sl. og hækka aftur 1. nóvember um sömu upphæð. Í júní 2010 hækka lægstu taxtar aftur um 6.500 kr.
Einnig var samið við ríkið á svipuðum nótum. Eins og því miður oft vill verða, þá reyndist ekki unnt að ganga frá samkomulagi við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu – SFH á sama tíma en undir hann falla meðal annars fjölmennir hópar Eflingar sem starfa á hjúkrunarheimilum. Ástæðan fyrir þessum töfum var sú að forsvarsmenn SFH vildu ekki ganga frá samkomulagi við Eflingu nema að undangenginni staðfestingu frá Heilbrigðisráðuneytinu um að fyrirtækin eða stofnanirnar innan samtakanna fengju launahækkanirnar að fullu bættar. SFH og ráðuneytið hafa löngum deilt um hverjar þessar upphæðir ættu að vera sem hefur því miður oft leitt til þess að launabætur til félagsmanna Eflingar hafa ekki skilað sér á sama tíma og hjá sambærilegum hópum. Hefur Efling hvatt bæði SFH og Heilbrigðisráðuneytið til að leysa þennan hnút sem fyrst og mun fylgja því fast eftir áfram.
Gengið hefur verið frá samningum við ýmis fyrirtæki og stofnanir sem taka mið af opinberum samningum, svo sem Faxaflóahafnir, Reykjalund og Eir og Skjól. Efling hvetur félagsmenn sína sem starfa hjá fyrirtækjum eða stofnunum sem taka mið af opinberum samningum að fylgjast með því hvort að ofangreindar breytingar eigi einnig við í þeirra tilviki. Hér má nefna einkarekna leikskóla sem eru innan Samtaka atvinnulífsins og greiddu ekki atvæði um samningana en taka samt sem áður mið af niðurstöðu samninga Reykjavíkurborgar. Í flestum tilvikum ættu launabreytingarnar sem tóku gildi afturvirkt 1. júlí að skila sér nú 1. september.