Select Page


Efling-stéttarfélag

Nýtum öll tækifæri til atvinnuuppbyggingar

Fjölmennur fundur trúnaðarráðs Eflingar-stéttarfélags hvatti í gærkvöldi stjórnmálamenn til að sameinast um atvinnuuppbyggingu svo komast megi hjá frekara tjóni á atvinnulífi landsmanna en orðið er. Fundurinn varar við öllum áformum sem sent geti stóra hópa launafólks beint á atvinnuleysisskrá. Þá varar félagið harðlega við aukinni skattlagningu á almennar launatekjur þegar skuldabyrði heimilanna fer vaxandi og atvinnutekjur margra heimila dragast saman. Félagið leggur mikla áherslu á að öll tækifæri til að skapa atvinnu verði nýtt á næstunni til að vinna þjóðina út úr kreppunni.

Efling-stéttarfélag hvetur stjórnmálamenn í landinu til þess að taka höndum saman um að rjúfa þann vítahring sem kominn er upp í stjórnun landsins.

Mikilvægast af öllu er að hefja nýja sókn í atvinnumálum með tímasetningu arðbærra framkvæmda og verkefna um allt land og hraða vinnu með verkalýðshreyfingu, atvinnurekendum og lífeyrissjóðum til að fá hjól atvinnulífsins í gang á ný.

Félagið varar við öllum áformum sem leitt geta til meiri atvinnuleysis. Það er engin lausn að segja upp stórum hópum launafólks sem fara beint á atvinnuleysisskrá eða verða að leita til sveitarfélaganna með framfæri fjölskyldna sinna. 

Efling-stéttarfélag varar einnig við aukinni skattlagningu á almennar launatekjur um leið og skuldabyrði heimilanna fer vaxandi og atvinnutekjur dragast saman.

Þjóðin verður við þessar aðstæður að sækja í auknum mæli í auðlindir sínar til að komast út úr keppunni.  Öll tækifæri til að skapa aukna atvinnu ber að nýta, hvort sem um nýjar virkjanir, stóriðju, ferðaþjónustu,  aukna sókn á fiskimiðin eða uppbyggingu í landbúnaði.

Full atvinna landsmanna er undirstaða alls annars sem gera þarf við uppbyggingu landsins eftir hrunið.

Efling-stéttarfélag hvetur stjórnmálamenn  til að sameinast um atvinnuuppbyggingu þegar í stað svo að komast megi hjá frekari tjóni á atvinnulífi landsmanna en orðið er.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere