Það kostar ekkert að ræða við ráðgjafann

19. 11, 2009


Það kostar ekkert

Að ræða við ráðgjafann

     Félagsmönnum Eflingar býðst nú að ræða við ráðgjafa hjá félaginu um starfsendurhæfingu sér að kostnaðarlausu. Endurhæfingarráðgjöf er ekki einungis fyrir þá sem glímt hafa við langvarandi veikindi. Samtal við ráðgjafa jafnvel við upphaf veikinda getur verið mjög gagnlegt til þess að fá ráðgjöf, stuðning eða hvatningu og sjá fyrir sér þau úrræði sem bjóðast sem fyrst. Úrræðin geta orðið mikil stoð þeirra sem síðar lenda í skertri vinnugetu til þess að geta starfað áfram á vinnumarkaði.
     Starfsendurhæfingarráðgjafi hóf störf hjá Eflingu 1. apríl 2009 frá þeim tíma hafa 51 einstaklingar komið í viðtal til ráðgjafa. Í dag eru 21 einstaklingar í reglubundnu sambandi við ráðgjafa í tengslum við starfsendurhæfingu. Starfsendurhæfingarráðgjafi hefur sótt um úrræði eins og sálfræðiþjónustu, líkamsrækt, námskeið og sjúkraþjálfun fyrir 17 einstaklinga. Úrræðin eru hluti af virkniáætlun og hafa það markmið að auka starfsgetu. Úrræðin eru að fullu greidd af Starfsendurhæfingarsjóði. Ráðgjafi er í sambandi við þann sem veitir úræðið og fer fram á mat á árangri í lokin. 
     Í dag koma flestir í starfsemdurhæfingarráðgjöf í gegnum sjúkrasjóð Eflingar. Þeim sem eru á sjúkradagpeningum er sent kynningarbréf og þeim boðið að hafa samband. Eftir það er bréfinu fylgt eftir með símtali frá ráðgjafa. Félagsmönnum er einnig bent á að þeir geta haft samband við starfsendurhæfingarráðgjafann að fyrra bragði.