Vatnsveitan 100 ára
Þann 2. október 1909 var vatni hleypt á fullfrágengna vatnsveitu frá Gvendarbrunnum. Stærsta verklega framkvæmd á Íslandi á þeim tíma. Við svo erfiðar aðstæður að við getum tæpast ímyndað okkur hvernig þetta var hægt á svo ótrúlega skömmum tíma sem að verkið tók. En aðdragandi og undirbúningur tók miklu meiri tíma, áratug a.m.k.
Knud Zimsen verkfræðingur og borgarstjóri gefur okkur ómetanlegar upplýsingar um Reykjavík í byrjun tuttugustu aldar í endurminningabók sinni sem Lúðvík Kristjánsson færði í letur. Bókin kom út hjá Helgafelli 1952. Knud Zimsen kom manna mest að þessu stóra verkefni, strax frá fyrstu skrefum en þá er hann verkfræðingur og byggingafulltrúi í Reykjavík.
Aðstæður til vatnsöflunar í Reykjavík voru mjög erfiðar fyrir 100 árum og höfðu verið svo lengi. Fólki fjölgaði stöðugt, byggðin þandist út en vatnsbólum fjölgaði ekki að sama skapi og sum þeirra voru mjög léleg, vatnið úr þeim mengað og brunnar þornuðu í þurrkatíðum og í hörðum frostum. Grunnir opnir brunnar voru kallaðir holur og í þá rann yfirborðsvatn, berandi með sér alls konar óþverra. Aðsókn að stóru brunnunum var mikil og snemma á morgnana myndaðist biðröð við þá. Seinni hluta dags var oft orðið lágt í brunnunum og erfitt að dæla upp úr þeim.
Árið 1900 er kominn eldhugi í bæjarstjórn: Guðmundur Björnsson héraðslæknir (síðar landlæknir) Barátta hans fyrir vatnsveitu fyrir Reykvíkinga stóð sleitulaust þau sex ár sem hann var í bæjarstjórn. Hann hafði einnig forustu þessara mála á þingi og síðasta árið sem hann sat þar sem þingmaður Reykvíkinga fékk hann samþykkt lög um vatnsveitu fyrir höfuðstaðinn.
Snemma árs 1903 komu boð til bæjarstjórnar frá Pike Ward enskum framkvæmdamanni sem vel var kunnugur á Íslandi, um að enskt vatnsveitufélag væri til með að gera vatsnveitu fyrir Reykjavík ef verkfræðingur sem sendur yrði til Íslands teldi það gerlegt. Sama ár í júní kannar enskur verkfræðingur Hooper aðstæður til vatnsveitu í Reykjavík og nágrenni og í fyrstu skoðar hann helst Elliðavatn en taldi að ekki væri gerlegt að leiða vatn þaðan svo langa leið og erfiða, Vatnið stæði of lágt og óbærilegur kostnaður myndi verða af að leggja neðanjarðarleiðslur svo langt og í þann jarðveg. Eftir að hafa skoðað Landakotsbrunn vandlega leggur Hooper til að reynt sé að bora fyrir vatni og þá helst í Öskjuhlíðartagli. Væri hægt að fá nóg vatn þar þyrfti að reisa mikla vatnsturna þar sem hæst bæri í bænum á Skólavörðuholti og Landakotshæð og véldælum til að koma vatninu í þrær og turna.
Þetta leist mönnum ekki vel á og Zimsen segir að mönnum hafi ofboðið þessar fréttir en þær þurfti ekki lengi að ræða því vatnsveitufélagið sem sent hafði Hooper vildi ekkert hafa með slíka framkvæmd á Íslandi að gera eftir að hafa fengið umsögn Hooper‘s.
Afskiptum Pike Ward´s af vatnsmálunum var ekki lokið. Ward var vel kynntur á Íslandi, hafði komið hér að togaraútgerð og var vel virtur fiskkaupandi. Menn báru traust til hans og Guðmundur Björnsson hafði sérstakt samband við hann. Í marsmánuði 1904 koma boð frá honum um að verkfræðingafélag í Exeter mundi vilja taka að sér gerð vatnsveitu og óskaði jafnframt eftir margvíslegum upplýsingum.
Bæjarstjórn tók vel undir þetta erindi og fól Guðmundi Björnssyni og Sigurði Thoroddsen að afla þeirra gagna er nauðsynleg þurftu. Þetta hefur gengið fljótt því í maí sama ár eru komnir tveir menn frá Exeterfélaginu og var sagt í bænum að annar hefði þá þekkingu sem til þyrfti en hinn peningana. Þettavoru Depree og Ward sem var verkfræðingur og hóf strax rannsóknir, fyrst hvort unnt væri að bora eftir vatni í bænum eða nágrenni hans og taldi það fljótlega óráðlegt, jarðvegurinn hraunkenndur, meira og minna sprunginn og þó að fyndist góð vatnsæð gæti hún brugðist og þyrfti ekki meira en minni háttar jarðskjálfta til. Boranatilraunir myndu taka langan tíma, eitt ár a.m.k. og verða dýrar. Verkfræðingurinn skoðaði svo Elliðavatn, Vífilstaðavatn og Hraunslæk við Hafnarfjörð . Ekki leist honum vel á það. Elliðavatn sem helst kom til greina væri of grunnt og myndi gruggast mikið í hvassviðrum. Elliðaárnar taldi hann langbestan kostinn og skilaði greinargerð með tillögu til bæjarstjórnar með útfærslu á verkinu.
Bæjarstjórnin þakkað þeim Ward og Depree og kvaddi þá með samsæti. Borgarafundur var haldinn í Bárunni 10 dögum síðar þann 28. maí og þar kom skýrt fram að mönnum ofbauð tilhugsunin ein að sækja vatn alla leið inn í Elliðaár en í fundarlok var samþykkt samhljóða tillaga:
„ Fundurinn lýsir trausti sínu til Bæjarstjórnarinnar í þessu máli og óskar þess að hún haldi rannsókn þess áfram“
Um þessar mundir er Jón Þorláksson landsverkfræðingur (síðar borgarstjóri, fjármálaráðherra, forsætisráðherra) að gera vatnsveitu fyrir Hafnfirðinga, hann var ákveðið þeirrar skoðunar að Reykjavíkurbær ætti sjálfur að sjá um framkvæmd og eiga sína vatnsveitu. Ekki láta það í hendur útlendinga. Hinsvegar þyrfti bærinn að senda tvo valda menn utan til að kynna sér vatnsveitugerð og læra vinnubrögð.
Vatnsnefnd var stofnuð viku eftir borgarafundinn. Um sama leyti koma tveir danskir verkfræðingar til Reykjavíkur. Fréttir höfðu borist til Hafnar um rannsóknir Breta í Reykjavík og tilboð Exeter félagsins. Danir kunnu því illa að fram hjá þeim væri gengið ef að meiri háttar framkvæmdir stæðu til. Dönsku verkfræðingarnir gerðu nokkrar rannsóknir og sögðu að þeim loknum að jarðvegur hamlaði því að unnt væri að nota borholur, besta leiðin og líklega sú eina væri að leiða vatnið úr Elliðaánum í bæinn. Þrátt fyrir samhljóða niðurstöður verkfræðinganna var hreint ekki hætt við boranir , þvert á móti nú skyldi borað og borað djúpt og mikið. Mest orð fór af Marius Knudsen í Óðinsvéum og hans fyirtæki í jarðborunum og 27. September 2004 kom hingað sendimaður Knudsens J. Hansen. Hann hóf borunartilraunir laugardaginn 1. Október og þeim var haldið áfram nær stöðugt til 15. September 2005. Þessar boranir hljóta að hafa kostað mikla peninga og Knud Zimsen sem hefur yfirumsjón með verkinu af bæjarins hálfu fylgist vandlega með. En það lítur ekki vel út með vatnið, hinsvegar kemur frétt um gullfund. Blaðið Reykjavík kemur út 1. apríl með svohljóðandi frétt:
„ Gull fannst síðdegis í gær við boranir uppi við Öskjuhlíð 118 feta dýpt í jörðu. Menn ugðu í fyrstu , að þetta kynni að vera látún, en við ítarlegar rannsóknir er nú sannprófað að það er skírt gull. Gullið er ekki sandur þarna, heldur í smáhnullungum sem jarðfarinn hefur skafið. Hve mikið það kann að vera verður reynslan að skera úr en á því er ekki vafi að hér er gull fundið í jörðu.“
Þarna er talað um ítarlegar rannsóknir en ekki hafa þær nú tekið langan tíma gullið fannst í gær segir blaðið.Ísafold sem kemur út sama dag 1. apríl 1905 segir þessa frétt á miklu hægari nótum í smádálk inni í blaðinu og segir að sjálfsagt sé að rannsaka það betur ef að gullvottur hafi fundist. Það fór allt á annan endann í bænum. Bæjarblöðin voru full af fréttum. Blaðið Reykjavík segir 8. Júní:
„ Nú er hættað bora eftir vatni-ekkert vatn á 160 feta dýpi en gull alla leið frá 118 til 160 feta djúpt meira eða minna. En fasteignir í bænum einkum lóðir stíga hratt í verði. Lóð, sem ekki hefði verið yfir 1500 kr. virði 30. maí, í var seld fyrir skömmu fyrir 15000 kr. Einstakir menn sem peninga eiga eða lánstraust hafa, kaupa allt hvað þeir geta af lóðum. Það er minnst séð enn af þeirri verðhækkun sem hér verður á fasteign.
Knud Zimsen segir að ekki sé rétt farið með að vatnsleit sé hætt, það hafi verið haldið áfram að bora eftir vatni framundir áramót. Um gullæðið talar hann lítið og skilja má að hann gruni Hansen stórverktaka um að hafa komið gullfréttunum af stað með röngu. En þó að illa gengi að finna kaldavatnsæðar í Reykjavík og nágrenni þá var annað að finna þar og það var heitt vatn. Knud Zimsen segir að augu hans hafi opnast fyrir möguleikum jarðhitans í nánd við bæinn og notkun hans.
Björn í Grafarholti bauð bænum að taka vatn í Grafarlæk en ekki þótti vænlegt að taka því tilboði og nú er farið að tala um vatnsleiðslu úr Elliðaám sem besta úrræði en þar voru málin bæði erfið og flókin. Reykjavík átti nefnilega ekki neitt í Elliðaánum. Elliðaár og nærliggjandi jarðnæði hafði mr. Payne keypt af Thomsen yngri, syni Ditlev Thomsens sem um miðja nítjándu öld hafði keypt jörðina Ártún og laxveiðina í Elliðánum nokkru síðar.Thomas A. Thomsen bauð bænum árnar fyrir 12000 kr. árið 1885 en því boði hafnaði bæjarstjórn og sá ekki einu sinni ástæðu til að ræða það segir Knud Zimsen.
Nú bauðst mr. Payne til að selja fyrir 12.500 sterlingspund. Við tók langt og strangt samningaferli sem lauk svo að bæjarsjóður fékk árnar með tilheyrandi réttindum fyrir 8000 sterlingspund eða 144000 krónur og einnig jarðirnar Ártún, Árbæ og Breiðholt. Við vitum ekki hvort mr. Payne var eigandi að þessum jörðum öllum en bærinn kaupir þessar jarðir þarna á sama tíma. Bæjarsjóður fékk lán í Íslandsbanka til kaupanna. 108 þúsund kr. Til 40 ára með 4.75% vöxtum. Þetta þótti vel hafa til tekist og bæjarsjóður gerir samning við Jón Þorláksson um að gera fullkomna áætlun um vatnsveitu til bæjarins.
Taugaveiki í Austurbæ
Þetta sama ár í nóvember 1906 kemur upp taugaveiki í Reykjavík og verður að faraldri á skömmum tíma. Íbúar Reykjavíkur voru þá 9.500. Veikin kom upp í Skuggahverfi sem var þéttbýlt og þar bjó tæpur þriðjungur bæjarbúa. Ýmsu var um kennt enda af nógu að taka eins og ástandið var í bænum, frárennsli ófullnægjandi og sumstaðar engin, aðgangur að vatni takmarkaður oft og tíðum og mannasaur sumstaðar notaður sem áburður í garða. Það var reyndar bannað með lögreglusamþykkt 1890 að nota salernisáburð innan byggðarinnar. Steingrímur Matthíasson settur héraðslæknir í Reykjavík deildi hart á aðstæðurnar í bænum og sagði jarðveg orðinn mengaðan af óþrifnaði. Matthías Einarsson læknir við Franska spítalann og starfandi læknir í Reykjavík var hinsvega sannfærður um að sýkingin bærist frá einu vatnsbóli Móakotslind.
Sjúklingarnir voru allir í hverfinu sem markaðist af Lindargötu að norðan, Laugavegi að sunnan, Smiðjustíg að vestan og Barónsstíg að austan. Fólkið á þessu svæði sótti allt vatn í Móakotslind nema íbúarnir í stærsta fjölbýlishúsi á landinu á þessum tíma Hverfisgötu 83. Þar veiktist enginn. Íbúarnir í þessu stóra húsi höfðu fínan brunn. Bjarni dannebrogsmaður frá Þorvaldseyri sem byggði Bjarnarborgina 1902 hafði að ráðum Knuds Zimsen og með aðstoð hans látið gera stóran og vandaðan brunn fyrir húsið og þessi brunnur er enn í portinu bak við Bjarnarborg, mikið mannvirki.
Matthías krafðist þess að Móakotslind væri lokað hið bráðasta. Hann benti bæjarstjórn sömuleiðis á annan brunn, þar sem sprungur væru í steypu en peningshús og salerni stæðu í halla fyrir ofan.
Leiðin liggur að Gvendarbrunnum
Árið 1907 eru verklegar framkvæmdir enn ekki hafnar en það er unnið áfram að undirbúningi. Alþingi samþykkir vatnsveitulög og á bæjarstjórnarfundi 7. nóvember er lögð fram kostnaðaráætlun og margvíslegar kannanir sem Jón Þorláksson hafði annast fyrir bæjarstjórnina, Kannanir höfðu sýnt að best væri að taka vatnið úr Gvendarbrunnum ofan Silungapolls. Annar fundur er haldinn hálfum mánuði síðar og þar samþykkt að gera útboð á öllu efni og verki eftir því sem hægt væri. Einn bæjarfulltrúi Kristján Ó. Þorgrimsson var á móti, vildi fresta málinu og bar það fyrir sig að áætlun um leiðslur frá Gvendarbrunnum væri ekki fullkomin. Þetta kom mönnum mjög á óvart eftir undirbúning málsins sem Kristján hafði fram til þessa tekið fullan þátt í.
Kristján konsúll boðaði þá til borgarafundar í Bárunni og reyndi að sýna bæjarmönnum fram á að ekkert vit væri í svona stórri framkvæmd, vatnsskattur yrði alltof hár og svo framvegis. En bæjarbúar voru búnir að fá nóg af vatnsleysi og óþrifnaði og vildu engar tafir.
Um sumarmál er byrjað að grafa
Eftir bæjarstjórnarkosningar í byrjun árs 1908 var kosin ný vatnsnefnd og um sumarmál var byrjað að grafa. Því starfi var haldið áfram allt sumarið og fram á vetur og einnig lagningu pípna í skurðina.
Fimmtudagskvöld 6. Ágúst var haldinn fundur í bæjarstjórn. Páll Einarsson borgarstjóri stýrði fundi. Þar deildu Lárus H. Bjarnason, Jón Jensson og Kristján Ó Þorgrímsson hart á vatnsnefndina og voru óánægðir með allan undirbúning nefndarinnar, einkum að því er snerti framkvæmdina í bænum. Leggja þyrfti gasrör og skólprör samtímis og spara stórfé með því.
Knud Zimsen segir að það hafi komið í sinn hlut að verja framkvæmdirnar enda hann eini maðurinn í vatnsnefndinni sem var verkfræðingur. Í stuttu máli segir Knud Zimsen að bæði tæknilega og fjárhagslega hafi það ekki verið gerlegt.
Fylgismenn Lárusar voru í meirihluta á fundinum og var frestað til næsta fundar viku síðar að taka ákvörðun um hvort pípulagningu skyldi hagað á þá lund sem vatnsnefnd hafði ákveðið.
Það var mikill hiti í umræðunni um framkvæmirnar og borgarstjóra barst bréf með fjölda undirskrifta. Þar var vatnsnefndin borin ýmsum sökum og kvartað var undan slælegri framkvæmd vatnsveitunnar.
Borgarafundur var haldinn í Bárubúð sunnudaginn 8. Nóvember. Fundarstjóri var Sigurður Sigurðsson ráðunautur(formaður Dagsbrúnar) ritari Þorsteinn Gíslason og málshefjandi Pétur Zophoniasson. Eldur kom upp í húsinu meðan á fundi stóð en var slökktur hið snarasta, hitinn í fundarmönnum lækkaði ekkert við það. Sigurður Jónsson frá Fjöllum, Lárus H. Bjarnason, Kristján Þorgrímsson kaupmaður og Guðrún Björnsdóttir höfðu sig mest í frammi af fundarboðendum segir Knud Zimsen. Fundurinn gerði svofellda tillögu:
„ Borgarafundurinn telur vatnsveitunni miða óhæfilega seint áfram, telur verkið illa unnið og ráðlauslega dýrt, sérstaklega eftirlitið. Fyrir því skorar fundurinn á bæjarstjórnina að hlutast til um að halda verkinu áfram með sem mestum hraða, að verkið verði vel vandað en þó gætt sparnaðar“
Holger A. Hansen danskur verkfræðingur hafði yfirumsjón með framkvæmdunum. Húsnæði var leigt af Kristjáni Ó. Þorgrimssyni í Kirkjustræti 10, þar höfðu yfirmenn við framkvæmdirnar bækistöð. Auk umsjónar með verki hér heima sá Hansen um eftirlit með pípugerðinni, en þær voru sóttar langt að, keyptar frá Frakklandi eftir tilboði.
Vandasamast verkið segir Zimsen var að koma pípunum fyrir í skurðunum og tengja þær saman.G. Lössl frá Kolding í Danmörku hafði þar yfirumsjón. K.V. Kjögx sá um vinnu innanbæjar. Verkamenn höfðu 30 aura á tímann og verkstjórar 50 aura. Kjögx hafði 300 kr. Í mánaðarkaup, það þótti óheyrilega hátt kaup og margir töldu hann óþarfan. Kjögx sem var danskur hafði áður haft umsjón með stórframkvæmdum á Íslandi, stórskipabryggju á Akureyri og byggingu vita á Reykjanesi. Knud Zimsen segir að verkhyggni hans og dugnaður hafi sparað landssjóði stórfé. Og að verkamenn hafi borið honum hið besta orð.
Bærinn hafði tvo vinnuflokka, 120 manns í hvorum flokki, auk þeirra voru flokkar í ákvæðisvinnu við gröftinn undir stjórn manna sem gert höfðu tilboð þar um. Í nóvembermánuði 1908 voru um 100 manns í vinnu hjá þeim sem höfðu fengið ákvæðisvinnuna. Þetta hefur verið áður óþekkt innspýting í atvinnulífið. Allt að 340 manns í vinnu við sömu framkvæmd og þó fengu færri en vildu. Skurðirnir þurftu að vera nokkuð djúpir, 4 fet niður að efra fleti röranna. (fetið er 30,48 sm.) Dynamit var notað til að sprengja gegnum klappir en það var ekki alltaf til nóg dynamit og þá var orpinn hryggur ofan á og vafið hampi um rörin.
Dagsbrúnarfundur
25. október kl. 6 síðdegis heldur Verkamannafélagið Dagsbrún fund í Báruhúsinu. Þar var samþykkt samhljóða tillaga sem Sighvatur Brynjólfsson bar upp:
„ Verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík leyfir sér hér með að skora á bæjarstjórn Reykjavíkur að sjá um að vinnan við vatnsgröft bæjarins sé veitt bæjarbúum, sérstaklega fjölskyldumönnum en utanbæjarmenn einkum útlendingar séu eigi teknir nema brýna nauðsyn beri til og innanbæjarmenn fáist ekki“.
Fundargerðarbók Dagsbrúnar 1908 bls. 61 segir að Sighvatur hafi verið málshefjandi umræðna um vatnsveitustarfið og vatnsveitunefndina. Síðan töluðu Pétur Zophoníasson, Þórður J. Thoroddsen, Knud Zimsen. Árni Árnason og Ottó N. Þorláksson og töluðu sumir þeirra oftar en einu sinni segir fundargerð.
Málin hljóta að hafa verið rædd vandlega á fundinum og Knud Zimsen og Þórður J. Thoroddsen hafa komið á fundinn samkvæmt beiðni Dagsbrúnar til að hægt væri að ræða málin beint. En það er ekkert bókað nema tillagan. Það mikilsverðasta að halda vinnunni fyrir heimamenn.
Megnið af efni til veitunnar var keypt hjá Sophus Berendsen ´Kaupmannahöfn sem átti lægsta tilboðið en rörin frá Frakklandi. Erfiðasta og áhættusamasta verkið segir Zimsen var að flytja pípurnar úr skipi í land og síðan um torleiði langan veg. Uppskipun gekk fljótt og vel og slysalaust. Gufuskipið Lydehorn kom með pípurnar og það varð auðvitað að koma þeim í land með bátum, engin hafskipabryggja var komin.
Þyngstu pípurnar voru 320 kg. Þetta var níðþungur og erfiður flutningur, vegir slæmir eða engir og flutningatækin hestvagnar í misgóðu ástandi. Margir vagnar brotnuðu og menn mörðust oft illa og skrámuðust.
Það var reist smáhýsi í Rauðhólum fyrir Holger Hansen til að hafa fyrir sig en ekkert kemur fram um hvernig var staðið að vinnubúðum fyrir verkamenn og verk og flokkstjóra og flutningamenn. Þetta er mikill fjöldi manns að vinna og það er langt að fara. Menn hljóta að hafa legið við a.m.k meðan unnið var við efstu áfangana. Við eigum ágæta lýsingu á vinnubúðum og aðstöðu við við gröft eftir Jón Gunnar Grjetarsson sagnfræðing en hann birti ritgerð um Síberiuvinnuna í Dagsbrúnarblaðinu 37. Árg. 1986. En það var löngu seinna sem menn voru að grafa skurði austur í Flóa. Það var í september 1935 sem byrjað var þar. .
Þetta er eyða sem við þurfum að fylla í. Lágu menn við í tjöldum? Hverjir áttu þá tjöldin eða voru reistar vinnubúðir og þá hvar og hvernig voru þær?. Höfðu menn skrínukost eða var eldað í vinnubúðum? Fundargerðarbækur Dagsbrúnar segja ekkert um það.
Ógleymanleg stund á horni Laugavegs og Vatnsstígs.
Segir Knud Zimsen þegar hann stóð við brunahana á horni Laugavegs og Vatnstígs miðvikudaginn 16 júní en þann dag var vatni hleypt á frá Elliðaám til bæjarins. Mestu erfiðleikarnir voru að baki og úrtölumennirnir þagnaðir í bili. Síðasti áfanginn var kláraður um sumarið og 2. Október 1909 var hreinu tæru köldu vatni hleypt á frá Gvendarbrunnum. Reykvíkingar höfðu eignast vatnsveitu.
Heimildir: Lúðvík Kristjánsson: Úr bæ í borg. Nokkrar endurminningar Knud Zimsens fyrrverandi borgarstjóra. Útgefandi Helgafell 1952.
Fundargerðabækur Verkamannafélagsins Dagsbrúnar.
Blaðið Reykjavík 1905
Ísafold 32. Árgangur 1905.
Hjálmfríður Þórðardóttir