Atvinnurekendur svara ekki umsóknum

25. 02, 2010

Atvinnurekendur svara ekki umsóknum

Mikið virðingarleysi

-segir Elín Kjartansdóttir

Það hefur nokkuð borið á því í samtölum við fólk í atvinnuleit að allt of oft er atvinnuumsóknum ekki svarað. Umsækjendum um atvinnu er sýnt mikið virðingarleysi, með þannig framkomu segir Elín Kjartansdóttir hjá Eflingu.

Já, þetta er allt of algengt og miðað við það sem atvinnuleitendur segja, þá er undantekning að þeim sé svarað með bréfi eða símhringingu. Allt of oft eru engin svör og engin viðbrögð við atvinnuumsóknum sem þeir senda inn bæði til auglýstra lausra starfa eða beint í fyrirtækin. Þá eru dæmi um ráðningarstofur sem fara eins að, segir Elín.

Fólki finnst þetta lítilsvirðing og mikil óvissa sem fylgir þessu að fá ekki nein viðbrögð. Þessi framkoma dregur oft sjálftraust fólks í atvinnuleit niður og í enn meiri afneitun en að fá bara synjun um starfið. Ætti að vera sómi hvers fyrirtækis að svara öllum umsóknum og fyrirspurnum um atvinnu. Öllum liði betur, segir Elín sem furðar sig á þessu viðhorfi margra fyrirtækja. Það er ætlast til þess að umsækjendur um vinnu sýni ákveðna fagmennsku og gangi vel frá umsóknum sínum.  Auðvitað á að gilda það sama um atvinnurekendur. Þeir eiga að sýna fagmennsku og fólki virðingu og atvinnuástandið á ekki að breyta neinu þar um, segir hún að lokum.