1. maí í Reykjavík
Sigurrós Kristinsdóttir varaformaður Eflingar er annar aðalræðumaður dagsins
Það verða konur sem bera hitann og þungann af baráttudeginum 1. maí að þessu sinni. Aðalræðumenn verða Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður Eflingar og Elín Björg Jónsdóttir, nýr formaður BSRB. Rannveig Sigurðardóttir, stjórnarmaður í VR stýrir fundinum sem að þessu sinni verður haldinn á Austurvelli framan við alþingishúsið.
Safnast verður saman neðan við Hlemm á Laugavegi um kl. 13.00 en gangan leggur af stað kl. 13.30. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika fyrir göngunni og einnig á Austurvelli. Gengið verður niður Laugaveginn, Bankastræti, Austurstræti og inn á Austurvöll. Á Austurvelli verður haldinn baráttufundur. Fundurinn hefst kl. 14.10. og lýkur um kl. 15.00. Kakó og leiktæki verða í boði fyrir börnin en fundinum lýkur um kl. 15.00.
Að loknum hátíðarhöldunum býður Efling – stéttarfélag upp á kaffi í Valsheimilinu á Hlíðarenda – Vodafone höllinni. Fyrir þá sem ekki eru vissir um hvar Valsheimilið er skal tekið fram að ekið er í áttina að Hótel Loftleiðum og beygt til hægri eftir vegaskilti sem sýnir Valsheimilið.
Fjölmennum í gönguna og tökum þátt í hátíðarhöldunum að öðru leyti. Njótum þess að fá okkur kaffi hjá Eflingu að hátíðarhöldunum loknum. Munum að þetta er dagurinn okkar.