1. maí ávarp Sigurrósar Kristindóttur varaformanns Eflingar stéttarfélags
Ágætu félagar
Til hamingju með daginn!
Dagurinn í dag er baráttudagur. Í dag minnumst við þess að allt sem launafólk þessa lands hefur náð fram, er fyrir vinnu, fórnir og dugnað okkar sjálfra.
Á þessari stundu þurfum við sjálf að endurmeta stöðuna eftir eitt erfiðasta ár í sögu okkar.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis opnaði augu okkar endanlega fyrir sannleikanum.
Í landinu hefur þrifist spilling, spilling embættismanna, spilling stjórnmálamanna en síðast og ekki síst spilling í bankakerfi og auðhringjum sem eiga stóran þátt í því hvernig komið er. Við skulum ekki gleyma því að í kjölfarið hrundi fjármálakerfið hér á Íslandi með þeim afleiðingum sem við nú stöndum frammi fyrir.
Siðferði þessa tíma leyfði milljónagjafir til stjórnmálamanna, milljarða kúlulán til forsvarsmanna fjármálastofnana og stórfyrirtækja. Lán sem þeir ætluðu að græða á ef vel gengi en við verðum nú að borga, almenningur í landinu.
Það er mikil ábyrgð sem hvílir á alþingismönnum hér í húsinu fyrir framan okkur. Þeir samþykktu einkahlutafélögin sem eru bestu verkfæri gróðaaflanna.
Einkahlutafélögin eru þannig að ef svikamyllan gengur upp, þá græði ég og tek út arð en ef fyrirtækið mitt tapar, þá borga skattborgarnir tapið fyrir mig.
Hér í þessu húsi voru ákvarðanir teknar um einkavinavæðingu bankanna. Hér horfðu menn líka ábyrgðarlausir á í aðdraganda hrunsins og aðhöfðust ekkert.
Erum við sátt við það?
Ég segi nei!
Við krefjumst ábyrgðar. Við krefjumst þess að þeir sem bera ábyrgð á þessu tjóni samfélagsins verði látnir axla þá ábyrgð
Við skulum horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Við erum nú að taka afleiðingum af gerðum stjórnmálamanna og þeirra sem eyðilögðu Fyrirtækin og bankana.
Afleiðingarnar sjáum við í
hækkandi gjaldtöku á almenningi
í skattahækkunum
í hárri verðbólgu og mikilli kaupmáttarrýrnun
í erfiðleikum fjölda fjölskyldna sem ekki geta staðið við skuldbindingar sínar
fjölskyldna sem eru að tapa eignum sínum
Vaxandi fátækt í þjóðfélaginu
Þetta er ástand sem kemur okkur öllum við. Eigum við að sætta okkur við það að þeir sem komu þessu öllu af stað, axli enga ábyrgð? Biðji flokkana sína afsökunar en gleymi þjóðinni.
Ég segi nei og aftur nei. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta.
Atvinnuleysi hefur aldrei verið jafn mikið og nú. Í dag eru á annan tug þúsunda atvinnulausir á Íslandi.
Eigum við að sætta okkur við það?
Ég segi nei.
Eigum við að sætta okkur við að biðraðir fólks fyrir utan hjálparstofnanir verði fastur liður í þjóðlífinu?
Ég segi nei.
En gleymum því ekki að velferðarkerfið sem við höfum byggt upp er núna öryggisnetið okkar, eina raunverulega haldreipið sem við getum reitt okkur á.
Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki atvinnuleysistryggingar?
Hvar værum við stödd ef við fengjum engin laun þegar fyrirtækin eru sett á hausinn ?
Hvar værum við stödd ef sjúkrasjóða stéttarfélaganna nyti ekki við sem margir reiða sig á í veikindum og afleiðingum slysa ?
Minnumst þess að öryggisnetið er þarna vegna þess að við höfum barist fyrir því og við þurfum enn að berjast fyrir því. Við erum sjálf okkar gæfu smiðir.
En hver er krafa okkar í verklalýðshreyfingunni í dag?
Við krefjumst þess að fjölskyldur á Íslandi eigi fyrir mat og nauðþurftum
Við krefjumst þess að fá að vinna. Við viljum vinna. Það er slagorð dagsins og ófrávíkjanleg krafa okkar.
Gríðarleg uppbyggingarverkefni bíða okkar m.a. í vegagerð hér allt í kringum borgina. Það bíður fjármagn og vinnufúsar hendur. Eftir hverju bíðum við?
Við viljum vinna að því að byggja hér upp réttlátt og sanngjarnt þjóðfélag þar sem fagmennska er höfð að leiðarljósi – ekki einkavinagæsla.
Við verðum að vinna að því að endurvekja traust á ný..og til þess þurfum við að losna við spillinguna og þöggunina í samfélaginu sem leiddi til hrunsins.
Við viljum vinna að því að verja störfin okkar!
Við viljum vinna að því verja heimilin okkar !
Við viljum vinna að því að verja grunnþjónustuna með kjafti og klóm!
Við viljum vinna að því að verja velferðarkerfið fyrir þá hópa sem veikast standa!
Við þurfum nýja sýn og við þurfum nýja framtíð sem er byggð á opnu samfélagi, gagnsæi, frelsi, jafnrétti og bræðralagi okkar sjálfra, að því skulum við vinna í sameiningu.