Mikilvægt starf með ungu fólki

Aðalstyrkveiting Eflingar til SÁÁ

Mikilvægt starf með ungu fólki

– segir Sigurður Bessason

Þeir sem eru eldri hafa aukið drykkju sína mjög

Flestir þekkja starf SÁÁ í gegnum vinnufélaga, ættingja og vini sem hafa notið góðs af starfi samtakanna. Færri vita um afskaplega mikilvægt starf samtakanna með ungu fólki.  Sérstaklega má þjónustu sem er þannig að hægt er að hafa samband vegna ungs fólks í fíkniefnavanda og leita úrlausna með samtökunum, sagði Sigurður Bessason í stuttu ávarpi á aðalfundi Eflingar þegar hann afhenti Þórarni Tyrfingssyni, formanni SÁÁ aðalstyrk Eflingar á þessu ári. Þórarinn sagði að gott væri að eiga slíka bakhjarla sem Eflingu en alla tíð hefði SÁÁ átt góða að allt frá þjóðarvakningunni þegar samtökin voru stofnuð árið 1977.

Sigurður Bessason sagðist hafa talið að hann vissi töluvert um starf SÁÁ. Flest okkar þekkja til stofnunarinnar í gegnum vinnufélaga, ættingja og vini eða aðra sem hafa þurft að leita til samtakanna í vímuefnavanda. Hann sagði frá því að hann hefði nýlega fengið að kynnast starfi  SÁÁ og það sem kom á óvart var hvað starfsemin er víðtæk og margvísleg og hve lítið fer fyrir henni í þjóðfélaginu, þessu góða starfi, sagði hann.  Þar á meðal var honum kynnt mikilvægt starf  SÁÁ með ungu fólki. Fáir vissu að  hægt væri að hringja vegna unglinga í fíkniefnavanda hvenær sem er.

Hann  tilkynnti fyrir hönd Eflingar- stéttarfélags að stjórn Sjúkrasjóðs og stjórn félagsins hefði ákveðið að færa SÁÁ tveggja milljón króna framlag til starfseminnar á þessum aðalfundi. Styrkur þessi er veittur til eflingar starfsemi SÁÁ sem staðið hefur í brjóstvörn áfengis og vímuefna forvarna á Íslandi frá 1977.

Þórarinn Tyrfingsson þakkaði þennan veglega styrk og sagði að sér væri efst í huga að eiga svona sterkan bakhjarl eins og félagið hér er. SÁÁ hefur vegna fjárhagsþrenginga á undanförnum árum þurft að draga úr þjónustunni eins og margir aðrir. Hann minnti á þjóðarvakninguna sem setti þetta af stað 1977 og í meirihluta karlmenn sem komu SÁÁ af stað til svo góðra hluta. Við höfum safnað upplýsingum, skráð allar sjúkdómsgreiningar og eigum mjög góðan gagnagrunn og getum á þeim grunni sótt um styrki til að þróa starf okkar  t.d. ESB.

Það sem gerðist á árunum1995-2000 var þjóðfélagsbreyting sem var mjög af hinu verra. Allt í einu stóðum við frammi fyrir miklum vanda ungs fólks í fíkniefnavanda í hundruðum talið. Við sjáum núna eftir opnun deildar fyrir ungt fólk að neysla er að minnka en aftur á móti höfum við séð að þeir sem eru eldri hafa aukið drykkju sína mjög, sérstaklega karlmenn og konur sem eru komin yfir fimmtugt hafa aukið drykkjuna og þess vegna mjög gott að unga fólkið tók sig á. Hann endurtók síðan þakkir sínar til Eflingar og óskaði félaginu velfarnaðar í störfum sínum.