Efling fær heimild til samningaviðræðna

21. 06, 2010

Frekari sameining félaga á döfinni?

Efling fær heimild til samningaviðræðna

Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags haldinn 29. apríl 2010 veitir stjórn félagsins heimild til að ganga til sameiningarviðræðna við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði. Jafnframt er heimilt að ganga til viðræðna við önnur félög á svæðinu óski þau eftir viðræðum.  Niðurstöður viðræðna verði lagðar fyrir trúnaðarráð og félagsfund í Eflingu þegar þær liggja fyrir.

Þannig hljóðar samþykkt aðalfundar Eflingar frá því í vor og þetta þýðir að heimild er nú veitt til  til stjórnar að fara í alvöru viðræður við Verkalýðsfélagið Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Á aðalfundinum 2009 var stjórninni heimilað að kanna þessi mál og hluti af þeirri könnun var fólgin viðhorfskönnun sem Gallup vann fyrir okkur þar sem mikill meirihluti þeirra sem afstöðu tóku hjá félögunum voru hlynntir sameiningu. Lítill minnihluti var á móti. Engin sérstök kynning hafði áður farið fram á kostum slíkra sameiningar svo kannski má segja að þessi niðurstaða  sé þeim mun ánægjulegri fyrir vikið, segir Sigurður. 

Búið er að samþykkja samhljóða tillögu hjá Verklýðsfélaginu Hlíf  og samskonar tillaga verður borin upp á aðalfundi Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Verklýðsfélag Sandgerðis hefur óskað eftir að fá að fylgjast með þessum viðræðum en þar er vilji til þess að taka þátt í ferlinum. Jafnframt hefur formaður Sjómannafélags Hafnafjarðar fylgst með þróun mála.

Á aðalfundinum komu fram bæði sjónarmið með og á móti frekari sameiningu við Eflingu en tillagan var síðan samþykkt mótatkvæðalaust.