Ræstingafólk flæmt frá störfum

25. 06, 2010

Hversu hratt skal hlaupa?

Ræstingafólk flæmt frá störfum

…í lok starfsferils síns

Til skrifstofu Eflingar-stéttarfélags hefur í auknum mæli leitað fólk og starfsmenn fengið ábendingar þess efnis að verið sé að stilla fólki upp við vegg með að auka vinnuafköst sín fyrir sömu laun og áður. Vinnufyrirkomulagi er breytt, ræstingafólki gert að taka mun stærri svæði en áður en ræsta sjaldnar hvert svæði. Þá kemur upp sú spurning hvað viðkomandi á að komast yfir stórt svæði á umsömdum tíma. Svarið er að miðað sé við að vinna á eðlilegum vinnuhraða og að tekið sé tillit til umsaminna neysluhléa. Þá kemur oftar en ekki ágreiningur um hvað geti talist eðlilegur vinnuhraði…

Í venjulegu atvinnuástandi á fólk þess kost að segja upp störfum þegar þrengt er að því í kjörum eða vinnuálagi. En í núverandi efnahagsástandi reynir mjög á stjórnendur og starfsfólk í mörgum fyrirtækjum og stofnunum. Engum dylst að fyrirtækjum og stofnunum er vandi á höndum þegar draga þarf úr rekstrarkostnaði svo um munar í kjölfar efnahagshrunsins. Það veldur hins vegar stéttarfélögum áhyggjum þegar niðurskurðurinn bitnar hvað harðast á þeim sem síst skyldi.

Efling-stéttarfélag vekur sérstaka athygli á sérstöðu eldri starfsmanna sem oft hafa starfað við ræstingar eða ýmis þjónustustörf í fyrirtækjum, jafnvel stóran hluta starfsævinnar en dæmi eru um að stjórnendur hafi svo þrengt að stöðu þessa fólks að það sjái þann vænstan kostinn að hverfa úr starfi.