Tökum vel á móti Gallup!

23. 08, 2010

Tökum vel á móti Gallup!

Viðhorf félagsmanna í forgrunni

Á undanförnum vikum hafa Efling, Hlíf ogVSFK undirbúið Gallup könnun félaganna sem að þessu sinni er mikilvægari en oft áður vegna  kjarasamninganna í haust. Leitað er eftir gagnlegum upplýsingum og viðhorfum félagsmanna til þess að geta betur mótað og byggt upp ýmis atriði við kröfugerð félaganna í samningunum. Þetta á meðal annars við um breytingar á tekjum, afkomu þeirra sem lent hafa í atvinnuleysi og fjárhagsstöðu heimilanna. Það er því afar brýnt að ná til sem flestra af 3000 manna úrtaki félagsmanna sem fá erindi um að taka þátt í þessu verkefni. Veglegir vinningar eru í happdrættispotti sem allir fara sjálfkrafa í sem taka þátt í könnuninni.

Vegna kjarasamninganna er könnunin viðameiri en áður og spurt um fjölmörg atriði sem snerta launakjör, réttindamál, þjónustu félaganna og ýmis atriði er snúa að viðhorfum þeirra til þess sem er að gerast á vinnustöðum þeirra og um stöðu heimilanna.

Á næstu dögum mun Capacent Gallup hafa samband við félagsmenn og vilja félögin eindregið  hvetja alla  til þess að taka þátt en því hærra hlutfall sem Gallup nær í könnunum, því marktækari verða þær og betra veganesti að vinna úr. 

Úrtakið er tilviljanakennt og nær til 3000 félagsmanna á öllum kjaramálasviðum og er hægt að svara bæði í síma og einnig á netinu. Það nær einnig til þeirra sem eru án atvinnu  til að hægt sé að skoða ýmsa þætti í kjörum þeirra.

Það verður efnt til veglegs happadrættis í tengslum við könnunina og þar verða í boði tveir peningavinningar 100 þúsund og 50 þúsund krónur auk fimm vinninga með vikudvöl í orlofshúsum félaganna.

Sem sé nú er bara að undirbúa sig undir gott viðtal við Gallup eða taka sér tíma til að svara á netinu ef þú lendir í úrtakinu.